Sóttólfur ætlar víst af stakri gæsku sinni leyfa 20 hræðum að koma saman, setja aftur á tveggja metra reglu og leyfa 200 vesalingum að mæta á viðburði eftir hraðpróf í stað 500 áður.
Ómíkron er víst ný veira og allt komið aftur á byrjunarreit samkvæmt því. Þrjár bólusetningar hafa ekkert að segja. Og væntanlega ekki sú fjórða heldur. Gott að vita að ég þarf ekki á henni að halda frekar en þeim þremur á undan. Sparar mér sporin í Laugardalshöllina í vor og sársauka í handlegginn.
Þessi dans við veiruna er orðinn fínn. Höfum hjakkað í sama farinu í bráðum tvö heil ár án nokkurs árangurs. Kominn tími á nýjan sóttvarnalækni. Kominn tími á að leyfa veirunni að leika lausum hala. Kominn tími til að viðurkenna að ekki er lengur hægt að hefta útbreiðsluna með takmörkunum, boðum og bönnum. Salurinn er fyrir löngu hættur að hlusta og nýjasta afbrigðið orðið allt of smitandi til að hemja það.