Kinnhesturinn

Ömurlegt upp á að horfa þegar Will Smith löðrungar Chris Rock fyrir miðlungsbrandara sem rétt snertir á krúnurökuðu höfði Jada Pinkett Smith, eiginkonu Wills. Að honum skuli ekki hafa runnið reiðin í göngutúrnum eftir sviðinu, eftir að hafa hlegið að brandarum til að byrja með, er óskiljanlegt.

Chris tók þessu ótrúlega vel. Minni menn hefðu slegið til baka eða kært Will og farið fram á milljónir dala í bætur. En ekki Chris, enda mun meiri maður en dekurdrengurinn Will sem telur sig geta slegið menn hægri og vinstri til að verja ímyndaðan heiður konu hans sem vitað er að hefur haldið fram hjá honum hægri og vinstri oft og mörgum sinnum.

Auk þess er engin þörf fyrir eiginmenn að verja heiður konu sinnar á þessum síðustu og verstu. Þær eru meira en fullfærar um að gera það sjálfar. Sjálfur hefði ég endurgoldið honum kinnhestinn á núll einni auk þess að brjóta á honum aðra hnéskelina à la Patrick Swayze Roadhouse style.

Auðvitað á að svipta hann Óskarnum og reka hann úr Akademíunni. Saksóknarinn í Los Angeles sýslu á svo að sækja hann til saka fyrir líkamsárás og loka hann inni. Loks á Chris Rock að fá dæmdar feitar skaðabætur sem hann getur gefið áfram til góðgerða. Ofbeldi er aldrei fyrirgefanlegt. Ofbeldi er vopn kúgara og aumingja.

Færðu inn athugasemd