Svo fyndið að hlýða á grátstaf íbúa miðbæjarins yfir hávaða frá helgardjamminu. Hver bað ykkur um að flytja þangað? Jú, kannski þið sjálf þegar þið voruð yngri og kunnuð að meta að vera í göngufæri við veiðilendur og sukk. Spara leigubílakostnað í uppeldisstöðvar ykkar í úthverfunum.
Svo funduð þið ykkur maka og fjölguðuð ykkur. Urðuð miðaldra og leiðinleg. Allt fer í taugarnar á ykkur. En gleymduð að flytja í úthverfin eins og foreldrar ykkar gerðu á sínum tíma og ætlist til að djammbærinn breytist með ykkur. Þannig gengur það ekki fyrir sig. Flýið bara upp til fjalla og leyfið ungviði og túristum að eiga helgarnætur miðbæjarins.
Kosningar eru í nánd og oddviti Flokks fólksins stingur upp á Granda fyrir næturlífið og að allt annað eigi að loka klukkan eitt. Eins og húsnæði sé þar á lausu og að ekki þurfi að byggja nýtt á landfyllingu sem er ekki til staðar. Fattar ekki að margt af núverandi húsnæði kráa og veitingastaða stæði autt ef sú starfssemi væri ekki í þessum gömlu og uppgerðu húsum sem er viðhaldið þess vegna.