Borgarlínan á að greiðast upp með þéttingu byggðar í kringum hana. Rándýrar íbúðir á færi aðeins þeirra sem einnig hafa efni á að eiga og reka bifreið. Sem sagt ekki framtíðar farþegar Borgarlínunnar.
Borgarlínan ætlar að gera út á tíðar ferðir í gegnum sérlínur milli akreina sem styttir ferðatíma til muna. Gott og vel. Vagnar á sjö mínútu fresti í báðar áttir. Allt gott og blessað ef fólk nennir og vill þennan ferðamáta. – Sem langflestir kjósa ekki!
Ég er síðasti Móhíkaninn! Síðasti miðaldra Íslendingurinn sem ferðast enn með strætó. Og aðeins vegna þess að ég hata að aka í kös borgarinnar, hef ekki efni á bíl og fæ samgöngustyrk frá vinnustaðnum mínum sem greiðir Klappið mitt nær að fullu. Annars myndi ég hjóla.
Borgarlínan eru leiktjöld til að tefja alvöru uppbyggingu almenningsamgangna höfuðborgarsvæðisins. Það mun engin brú rísa yfir Fossvoginn. Sannið þið til.