Kerfisbundið er verið að brjóta niður almenningssamgöngur höfuðborgarsvæðisins meðan bent er á framtíðarlausnina Borgarlínu sem mun líklega aldrei koma, og þá aðeins í ofureinkavæddri mynd undir stjórn einhvers undirsáta Sjálfstæðisflokksins.
Sem farþegi strætó í bráðum hálfa öld, þá verð ég að segja að aldrei hefur ástandið verið eins slæmt og nú. Það er engan veginn eðlilegt að geta ekki treyst á að komast út á sinni stöð að ferð lokinni nema einhver farþegi bíði þar fyrir.
Oftar en ekki er bílstjórinn sjálfskipaður einræðisherra sem er með örlög þín í hendi sér. Ekur um eins og Formúla 1 ökumaður og sleppur að hleypa þér út ef enginn bíður eftir fari á þinni stöð. Mátt gjöra svo vel að fara út næst því bílstjórinn nennir ekki að stöðva vagninn til að hleypa þér út.
Áður fyrr nægði að hrópa fram í vagninn til bílstjórans ef hann gleymdi þér. En ekki lengur. Það er ekki hlustað á þig. Enda bílstjórinn frá einhverjum öðrum menningarheimi þar sem hann er guð og þú ert peð sem átt að hlýða. Eitthvað sem við Íslendingar höfum ekki átt að venjast fram að þessu.
Enda tel ég að Borgarlínuverkefnið séu endarlok almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu. Gamaldags bákn sem er ætlað að líta út sem heildarlausn allra vandamála á því sviði en er í raun dauðadómur þess.
Rétt eins og opin vinnurými sem hafa verið fullreynd í hinum vestræna heimi í kringum okkur nema hér. Talin klúður og síst til þess búin að auka afköst og ánægju á vinnustað. Samt ætlum við að koma þeim á koppinn því við vitum svo miklu betur en aðrar þjóðir og getum gert allt betur eins og með bankakerfið fyrir hrun.
Það ferðast enginn með strætó nema viðkomandi neyðist til þess sökum efnahags, aldurs eða bílprófsleysis. Og sá hópur margfaldast ekkert við miðlæga vagna með aukinni tíðni um miðlægar götur. Fólk nennir ekkert að ferðast með strætó og sættir sig frekar við einkabílinn í umferðarteppu á leið til og frá vinnu til að losna við allt gasprið, lyktina og hávaðan frá farsímum annarra farþega.