Fáar sögur úr mínum skóla

Eftir að hafa hlustað á hlaðvarpið um Skeggja kennara í Laugarnesskóla sem fór inn á buxur drengja og niðurlægði stúlkur sem dirfðust að bera eyrnarlokka eða varalit, þá fór ég að pæla í kennurum minnar grunnskólagöngu. Voru þau öll til fyrirmyndar?

Man ekki eftir neinum sérstökum perra sem herjaði á nemendur. Að vísu „villtist“ einn inn í sturtuklefa gaggóstúlkna með móðug gleraugu og þóttist ekki sjá neitt. Yeah right! Var að mig minnir slegið á fingur hans og atvikið skrifað á erfiðan skilnað sem hann var að ganga í gegnum á þessum tíma. Ekkert #metoo í gangi þá.

Eftir á að hyggja var ég samt aldrei sáttur við hegðan eins kennara sem var í nokkru uppáhaldi hjá mér. Hvernig hann talaði niður til nemenda sem stóðu sig ekki vel í náminu. Steininn tók úr þegar hann sagði við, að ég tel strák á einhverfurófi, að verið væri að koma að sækja hann þegar sírenur vældu í fjarska.

Nemar sem mættu illa undirbúin í tíma var sagt að fara til ritarans og fá strætómiða til að fara niður að tjörn til að gefa öndunum. Enginn skilningur var á mögulega erfiðum heimilisaðstæðum, námserfiðleikum eða lesblindu. Allir áttu að vera sigurvegarar. Enda kennarinn fyrrverandi fótboltahetja.

Færðu inn athugasemd