Mér er virkilega brugðið

Er það bara ég? Kannski eitthvað við ásjónu mína eða líkamsbyggingu? Af hverju lendi ég alltaf í einhverju svona?

Brunaði í Mjóddina eftir vinnu með leið 17 til að kíkja í Nettó eftir súrum hval og kannski svartfuglseggjum fyrir mömmu.

Allt gott og blessað þar til skugga dregur fyrir sólu og tveir lögregluþjónar standa fyrir framan mig inn í miðri verslun. Glæsilegt par um þrítugt. Hann spyr mig varfærnislega hvernig atburðarrásin hafi hafist. Vill fá mitt sjónarhorn á af hverju ég réðist á unga stúlku á göngugötunni með því að slengja bekk utan í annan fót hennar svo sá á. Lýsing hennar á árásarmanninum passi við mig.

Steinhissa ég með súran hval og salat í kerrunni hváði á móti. Sagðist vera nýkominn í Mjóddina og ekki enn stigið fæti í göngugötuna. Álengdar sá ég lögreglukonuna ræða við að ég held föður stúlkunnar og vin hans. Þeir horfðu á mig hatursfullum augum. Meinta ofbeldismanninn sem skellti heilum bekk á fót dótturinnar og þóttist ekkert kannast við það. Skil þá vel.

Lögreglumaðurinn dró mig til hliðar til að hripa niður upplýsingar og skoða skilríki. Tjáði mér að nú sætti ég stöðu grunaðs manns og ætti von á símtali næstu daga eftir að búið væri að fara yfir upptökur öryggismyndavéla í göngugötunni. Frábært!

Átti ég að öskra og æpa eða halda ró minni og vera samvinnuþýður. Kaus rónna enda engin ástæða til að æsa sig saklaus maðurinn. Lögreglan var bara að sinna starfi sínu, þó mér þyki skrítið að þau, og þá sérstaklega hún með viðhorfi sínu, gerðu bara ráð fyrir að ég væri sekur.

Verst þykir mér að það var bent á mig. Eftir lýsingu gegnum þriðja aðila. Fyrir að vera sköllóttur, miðaldra, þéttvaxinn og hvítur. Get aldrei sett mig í spor fólks sem er tekið til hliðar vegna húðlitar, en skil af hverju því er brugðið og er óttaslegið. Ég varð hræddur í fyrsta sinn í lengri tíma.

Mér var virkilega brugðið og hræddur um að vera leiddur í járnum niður á Hverfisgötu. Lokaður inn í gluggalausum klefa með alla mína innilokunarkennd.

Eftir að lögregluþjónarnir kvöddu fór ég að skima eftir föðurnum og vini hans af ótta við áras úr þeirri átt. Lífið á ekki að vera svona. Ætla aldrei aftur í Mjóddina.

Færðu inn athugasemd