Gamli maðurinn og sorpið

Eftir gráan og votan mánudagsmorgun fór að birta aðeins til þegar ég þrammaði heim úr vinnu. Kom við í Krónunni og lenti í úlfatíma dauðans. Allir krakkar grenjandi, rellandi og dauðþreyttir. Var fljótur að koma mér út.

Er ég nálgaðist blokkina mína sá ég aftur þennan gamla mann með sorpið. Karl á áttræðisaldri með sixpensara og rusl í glærum pokum sem hann setti í djúpgámana okkar. Þeir þrír sem ég sá lentu í plastgámnum. Og voru greinilega almennt sorp. Og hann er ekki einu sinni nágranni minn.

Búinn að leggja bílnum sínum í stæði hinum meginn götunnar. Eflaust búinn að dæla fleiri pokum í gámana okkar áður en mig bar að. Ekki nema von að gámarnir fyllist svona fljótt þegar einhver gamalmenni úr öðrum hverfum koma með ruslið sitt. Hvað gengur manninum eiginlega til?

Kunni ekki við að smella mynd af honum og sá ekki númerið á bílnum hans. Sá hann bara setjast inn og fá sér bita af brauðsneið og kaffisopa áður en hann hvarf á braut. Kannski er hann að fela sönnunargögn um glæp.

Gamli maðurinn og glæpurinn.

Færðu inn athugasemd