Hef ég enn stöðu grunaðs manns?

Eftir að löggubörnin tvö sökuðu mig um að hafa barið unga stúlku með níðþungum bekk í Mjóddinni og tilkynnt mér að ég væri með stöðu grunaðs manns, hef ég hrokkið í kút í hvert sinn sem ég sé bifreið eða bifhjól merkt lögreglunni.

Veit ekki hvernig eða hvenær ég get treyst þessum trúðum aftur. Engin rannsókn. Bara gengið út frá því að ég væri maðurinn út frá lýsingu greyið stúlkunnar sem varð fyrir árás af hendi manns líkum mér í vexti og útliti sem venur komur sínar í Mjóddina og er þekktur fyrir að vera tæpur á geði. Fékk að heyra það seinna útundan mér en ekki frá löggubörnunum.

Ávarpaður af löggudrengnum: „Af hverju réðstu á stúlkuna?“ Dómur upp kveðinn og ég sekur á leið í fangelsi með myrðandi augnaráð lögreglustúlkunnar á mér sem hafði gleymt báðum pennunum sem hún á að bera á sér öllum stundum þegar hún fór að ræða við föður stúlkunnar sem virtist eðlilega tilbúinn að drepa mig.

Viðurkenni fúslega að ég er bálreiður yfir að vera ranglega sakaður um að ganga í skrokk á barni. Og að vera sennilega enn með stöðu grunaðs manns í málasafni lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu er óásættanlegt.

Ætla því að krefjast þess að ég verði ekki lengur með stöðu grunaðs manns og fái afsökunarbeiðni fyrir að vera ranglega sakaður um glæp sem ég framdi ekki. Svona gengur ekki!

Færðu inn athugasemd