Hjólastóllinn er mættur en engin akstursþjónusta. Læknisvottorðin standa á sér. Enda ekkert sérstaklega hrifinn af því að vera rúllað á milli staða með fullt af öðrum vitleysingum og vera jafnvel skilinn eftir við TBR braggann eins og strákgreyið um daginn
Þar sem ég er bæði þrjóskur og þver, þá lít ég ekki á mig sem óvinnufæran, heldur bara eiga í erfiðleikum með að koma mér á milli staða. Leysi úr þeirri þraut fyrr heldur en síðar.
Er ekki þeirrar gerðar að geta hangið eins og hor upp á vegg og horft á Netflix vikum saman. Tvær til þrjár vikur eru meira en nóg. Þarf að hitta fólk og bretta upp ermar. Annars verð ég geðveikur.
Hef því leigt hnéhlaupahjól út maí. Hækjurnar eru ekki alveg að gera sig fyrir mig nema heima við. Sæki það eftir helgi og vonandi virkar það betur en hækjur og hjólastóll. Og vonandi get ég þannig ferðast með strætó.
Leigubílarnir eru farnir að létta pyngjuna ískyggilega rétt eins og allar heimsóknirnar á sýklalyfjadæludeildina upp á 4.800 kr. í hvert skipti. Verð orðinn öreigi áður en yfir lýkur. Takk ríkisstjórnir síðustu ára fyrir að eyðileggja heilbrigðiskerfið og einkavinavæða það.