Æ, eigum við ekki bara að klára þessar kosningar til forseta Íslands sem snöggvast í stað þess að þræla okkur í gegnum viðbjóðslega kosningabaráttu háða af réttlætisriddurum athugasemdakerfa netsins.
Skellum þremur efstu á kjörseðil og kjósum strax. Baldur, Jón og Katrín og málið er dautt.
Ég veðja á Kötu vegna persónufylgis hennar. Það er kominn tími á konu á Bessastaði. Auk þess hefur einstaklingur með skegg aldrei setið þar við völd. Allir með vel rakaða vanga frá Sveini til Guðna.
Höfðum stjórnmálaprófessor þar í tuttugu ár. Þurfum ekki annan. Jafnvel þó hann sé samkynhneigður. Eða trúð úr Reykjavík sem gerði ekkert gagn umfram aðra borgarstjóra á undan honum.
Kata er best til þess fallin að verða næsti forseti af þessum skrilljón frambjóðendum sem telja sig þess verð að taka við af Guðna. Hún kann hlutverkið utan af. Hefur hitt allt liðið í útlöndum og er málkunnug þeim.
En sumir vilja refsa henni fyrir að svíkja lit og þjást með flokkunum tveimur í ríkisstjórn í sjö ár. Hvernig hefðu þau sjö ár verið án hennar fyrir okkur hin?