Sex vikur án göngutúra og inniveru taka sinn toll. Allt þol er horfið og ég kemst varla á milli herbergja án þess að standa á öndinni.
Pantaði sitthvað með Heimkaup um helgina því engin sendingargjöld voru í gildi. Eins og síðast þá hringdi sendillinn og sagðist vera fyrir utan. Ég spurði á móti hvort að hurðin virkaði ekki og hann svaraði nei.
Auminginn ég brunaði á hnéhjólinu niður með lyftunni. Á móti mér mættu mæðgur nýkomnar í gegnum útidyrnar með hjálp dyrasímans. Fyrir utan stóð sendillinn. Sem betur fer bauðst gaurinn til að bera pokana með mér upp á þriðju hæð þegar hann sá ástandið á mér og ég þakkaði kærlega fyrir.
Eitthvað er að rofast til í akstursþjónustunni. Kemur í ljós í vikunni. Langar bara svo til að mæta aftur til vinnu. Er að verða geðveikur á Netflix og hangsi heima étandi netpantaðan mat. Þessi fótur er ekkert að fara lagast á nokkrum vikum. Sumar og haust verða undirlögð af heltu og leiðindum.