Hagkaup ætlar loks að hoppa á vagninn óstöðvandi í átt að eðlilegu aðgengi að áfengi í gegnum vefverslun með sönnun á aldri með Auðkenni og framvísun skilríkja þegar viðkomandi sækir vöruna einhvers staðar á bak við fjarri augum barna og einstaklinga veikum fyrir víni. Rétt eins og Costco hefur gert mánuðum saman.
En það er ekki nóg. Allur bannkórinn er risinn upp á afturlappirnar öskrandi: „hvað með börnin?“, „ÁTVR er nóg“, „lögbrot“ og „stærsta lýðheilsuslys Íslands“. Síðasta fullyrðingin kemur frá leiðinlegasta manni landsins sem kærði sjálfan sig fyrir kaup á bjór á netinu til lögreglunnar. Veit ekki til þess að slíkt sé einfaldlega hægt eða gangi upp innan dómskerfisins. Getur játað glæp en varla kært sjálfan sig. Verður ekki saksóknari að gera slíkt fyrir hans hönd?
Sjálfstæðisflokknum er drullusama um einkaleyfi ÁTVR eða netsölu erlendra síðna hérlendis. Nema kannski brennivínsbarninu úr Grindavík hvers nafn ég man ekki. En það hlustar enginn á hann. Jón Gunnarsson má eiga að hafa leyft innlendum framleiðendum að selja sína vöru frá býli í stað þess að drösla bjórnum í gegnum bákn ÁTVR. Eðlileg ósk sem hann varð auðvitað við.
Og núverandi dómsmálaráðherra er sama sinnis. Sala á áfengum drykkjum úr ríkisreknum sjoppum víðsvegar um landið er löngu úrelt fyrirkomulag. Skilst reyndar að þar sé líka hægt að versla í gegnum netið og sækja í tiltekna verslun – rétt eins og Hagkaup ætlar að gera.
Þá hefst söngurinn um forvarnarstefnu og aðgengi. Sem eru hvort tveggja bull og þvæla. Fyrir þyrsta eru þessi tvö atriði lítið að þvælast fyrir nema á sunnudögum. Hinir allra hörðustu bruna bara á hádegisbarinn og eyða hýrunni þar á margföldu verði. Þeir skynsömu geta núna kíkt á netið og pantað heim á innan við 60 – 90 mínútna án þess að hreyfa sig úr sófanum.
Þvermóðska og frekja þeirra sem telja sig betur gerð til að segja okkur hinum hvernig við eigum að lifa lífinu jaðrar við fasisma. Samband þjóðarinnar við áfengi var lengi erfitt framan af. Vegna verslunarhafta og leiðinda bindindispostula. Allt þar til bjórinn var leyfður, utanlandsferðir urðu algengari og fólk fór að neyta áfengis í hófi í góðra vina hópi yfir máltíð með rautt, hvítt og bjór á kantinum á siðmenntaðan hátt.
Lög eru ekki meitluð í stein til eilífðarnóns. Þau úreldast með tímanum og gleymast stundum í bálkum öldum saman án þess að vera afnumin eða að hafa nokkuð að segja um daglegt líf fólks. Rétt eins og megnið af Biblíunni sem fáir fylgja á þessum kletti nema ferkantaðir, miðaldra gaurar sem iða í skinninu yfir að fá að stjórna öðrum með hverju meðali sem þeir geta gripið til.
Heimurinn er orðinn að einu markaðssvæði með tilkomu netsins. Og enn frekar eftir Covid-19 sem þróaði vefverslunina áfram og kenndi okkur að við getum pantað fleira heim en pizzur og kínverskan mat án nokkurra vankvæða. Flestar verslanir nú til dags eru líka með vefverslun þar sem þú getur pantað heim vörur. Flestar nema ÁTVR sem neitar að horfast í augu við breytta heimsmynd og mun því úreldast sjálfkrafa.
ÁTVR opnar bara útibú við verslunarmiðstöðvar með hundruðir bílastæða. Lokuðu mínu útibúi í Borgartúni skömmu eftir að ég flutti í hverfið og ætla sér ekkert að koma hingað aftur. Þar kom að vísu Krónan sem sárabót. Laugardalurinn er afskiptur á svo margan máta. En það er efni í annan pistil.
Ykkur að segja þá þakka ég fyrir netsölu á áfengi þá þrjá mánuði sem ég hef hangið heima í veikindaleyfi frá vinnu. Annars hefði ég ekki fengið neinn Bola þegar kverkarnar voru þurrar. Heimkaup eru með besta dílinn á Bola og framúrskarandi þjónustu. Vona innilega að Hagkaup gíri upp heimsendingarþjónustu sína í takt við Heimkaup og Nettó.