Bessastaðir brenna

Mikið er ég feginn að þurfa ekki að mæta á kjörstað næsta laugardag vegna tímabundinnar fötlunar. Er ekki að fara að splæsa í leigara upp á samtals 6.000 kr. báðar leiðir til að krossa við einhvern frambjóðanda. Og get ekki séð að boðið sé upp á akstur á kjörstað af nokkru framboði. Svo ég sit bara heima sáttur.

Enda er mér svo drullu sama hver verður forseti á eftir Guðna Th. Jóhannessyni. Verst að hann nennti ekki fjórum árum í viðbót. En ég skil hann vel. Lífið verður að halda áfram. Gnarrinn hefði alveg dugað mér næstu fjögur árin meðan þjóðin væri að draga hausinn úr rassinum á sér. Eða Steinunn Ólína sem nýtur allt of lítils fylgis.

Seint hefði ég trúað því að Katrín yrði frambjóðandi valdastéttarinnar. Og þó. Er nú einu sinni Thoroddssen í móðurættina. Hlébarðar skipta ekki um mynstur. Fjölskyldurnar fjórtán sjá um sig og sína. Vinstri, hægri og miðja skipta litlu undir slíku ljósi.

Á meðan elta sauðirnir fallegt bros og heillandi persónuleika inn í kjörklefann. Ekki ég! Mun sitja heima og horfa á Bessastaði brenna næstkomandi laugardag. Forsetaembættið er gamaldags og má alveg við því að vera lagt niður eftir að Guðni hættir.

Færðu inn athugasemd