Rúmlega tveggja vikna jólafrí fór að mestu í svefn og almenna leti. Nennti fáu nema að sofa og glápa á enskar glæpaseríur. Teiga nokkra bjóra og hlusta á rokk og ról. Hlusta á fréttir og önnur leiðindi í útvarpinu.
Er fyrir löngu síðan hættur að skipta mér af þessum blessuðum jólum og áramótum. Hlaupa á eftir gjöfum og jólakortum. Hvað þá þefa uppi fjölskylduboð og skella í háa fimmu við fulla frændann. Horfði þó á skaupið og hálftíma flugeldageðveikina öðru hvoru megin við miðnættið.
Jólin kláruðust fyrir mér þegar ég fékk ekki lengur að leika jólasvein og hræða frændsystkin mín. Fjórði og síðasti ættliður í búningi sem Kristín langamma saumaði fyrir sjálfa sig á sínum tíma eftir ameríska Kóka-kóla sveininum til að hrella eigin afkvæmi. Við hlutverkinu tóku afi, pabbi og frændur. Ég var síðasti Móhíkaninn og hver veit hvar búningurinn er núna niðurkominn. Sennilega í Sorpu.