Litlir menn ganga með byssur

Huglausa lögreglan í Uvalde þorði ekki inn í skólann þrátt fyrir að vera með alvæpni.

Leyfði aumingjanum að dunda sér við að murka lífið úr 19 börnum og tveimur kennurum.

Bara af því að þeir þorðu ekki að leggja líf sín að veði. Á meðan hljóp móðir inn í skólann og bjargaði börnunum sínum tveimur.

Fleiri huglausir menn með byssur leysa engan vanda. Menn með byssur eru ósköp litlir menn.

Leiktjöld almenningssamgangna

Borgarlínan á að greiðast upp með þéttingu byggðar í kringum hana. Rándýrar íbúðir á færi aðeins þeirra sem einnig hafa efni á að eiga og reka bifreið. Sem sagt ekki framtíðar farþegar Borgarlínunnar.

Borgarlínan ætlar að gera út á tíðar ferðir í gegnum sérlínur milli akreina sem styttir ferðatíma til muna. Gott og vel. Vagnar á sjö mínútu fresti í báðar áttir. Allt gott og blessað ef fólk nennir og vill þennan ferðamáta. – Sem langflestir kjósa ekki!

Ég er síðasti Móhíkaninn! Síðasti miðaldra Íslendingurinn sem ferðast enn með strætó. Og aðeins vegna þess að ég hata að aka í kös borgarinnar, hef ekki efni á bíl og fæ samgöngustyrk frá vinnustaðnum mínum sem greiðir Klappið mitt nær að fullu. Annars myndi ég hjóla.

Borgarlínan eru leiktjöld til að tefja alvöru uppbyggingu almenningsamgangna höfuðborgarsvæðisins. Það mun engin brú rísa yfir Fossvoginn. Sannið þið til.

Símaklefi á hjólum

Byggi ég enn í Kópavogi myndi ég gæla við að veita Vinum Kópavogs mitt atkvæði. En þar sem ég er aftur fluttur í mitt fæðingarpláss Reykjavík, þá er Ábyrg Framtíð kannski málið. Á endanum kýs ég auðvitað Samfylkinguna af gömlum kratavana.

Er mjög hlynntur bættum almenningssamgöngum en hef mínar efasemdir varðandi borgarlínuna. Svo margt sem er byggt á óskhyggju í stað staðreynda í því máli.

Til að mynda sú staðreynd að Íslendingar vilja frekar aka sjálfir til vinnu heldur en að vera ekið í einhverri síldartunnu ólíkra þjóðarbrota sem blasta efni sínu heyrnartólalaust yfir allan vagninn úr snjallsímunum sínum meðan þau tala viðstöðulaust við einhvern á hinum enda línunnar.

Rasismi, já, eflaust af minni hálfu. En þegar ég var krakki þá talaði fólk yfirleitt ekki í strætó og leyfði samfarþegum sínum að sitja óáreitt í þögn og ró fram að sinni útgöngustöð eftir langan vinnudag. Enginn nennir að ferðast með símaklefa á hjólum.