Miðbæjarblús

Svo fyndið að hlýða á grátstaf íbúa miðbæjarins yfir hávaða frá helgardjamminu. Hver bað ykkur um að flytja þangað? Jú, kannski þið sjálf þegar þið voruð yngri og kunnuð að meta að vera í göngufæri við veiðilendur og sukk. Spara leigubílakostnað í uppeldisstöðvar ykkar í úthverfunum.

Svo funduð þið ykkur maka og fjölguðuð ykkur. Urðuð miðaldra og leiðinleg. Allt fer í taugarnar á ykkur. En gleymduð að flytja í úthverfin eins og foreldrar ykkar gerðu á sínum tíma og ætlist til að djammbærinn breytist með ykkur. Þannig gengur það ekki fyrir sig. Flýið bara upp til fjalla og leyfið ungviði og túristum að eiga helgarnætur miðbæjarins.

Kosningar eru í nánd og oddviti Flokks fólksins stingur upp á Granda fyrir næturlífið og að allt annað eigi að loka klukkan eitt. Eins og húsnæði sé þar á lausu og að ekki þurfi að byggja nýtt á landfyllingu sem er ekki til staðar. Fattar ekki að margt af núverandi húsnæði kráa og veitingastaða stæði autt ef sú starfssemi væri ekki í þessum gömlu og uppgerðu húsum sem er viðhaldið þess vegna.

Ferðalína til fjarlægra landa

Í raun er það stórmerkilegt að ég skuli enn ferðast með strætó. Ég stundum hata þennan ferðamáta! Aðallega vegna bílstjóranna sem eru misgeðveikir í aksturslagi og háttum. Aka eins og brjálæðingar svo ég verð bílveikur. Að sama skapi getur verið fróðlegt að ferðast með hinum ýmsu menningarheimum.

Bara núna á laugardaginn hefði verið hægt að skíra vagninn Leið 4 – Hlemmur – Hamraborg – Miðausturlönd. Bílstjórinn var með fótboltalýsingu á hæsta styrk í símanum sínum á arabísku og hálf pirraður yfir að ég skuli hafa vogað mér inn í vagninn.

Tvær fjölskyldur með lítil börn sem öskruðu og grétu á arabísku. Tvær bandarískar túristagelgjur af arabískum ættum stigu inn í vagninn við Kringluna og settust fyrir aftan mig eftir að hafa heillað bílstjórann og sleppt þannig við fargjaldið. Settu auðvitað arabískt rapp í gang í símunum sínum mér til yndisauka.

Ekki svo slæmt að ferðast með annarri menningu milli hverfa höfuðborgarsvæðisins. Sparar flugfargjald til téðra landa. Stundum er pólsk stemning. Jafnvel bandarísk ef maður fer með tólfunni niður í miðbæ. Strætó er fjölmenningartorg sem fólk í einkabílum verður af.

Kinnhesturinn

Ömurlegt upp á að horfa þegar Will Smith löðrungar Chris Rock fyrir miðlungsbrandara sem rétt snertir á krúnurökuðu höfði Jada Pinkett Smith, eiginkonu Wills. Að honum skuli ekki hafa runnið reiðin í göngutúrnum eftir sviðinu, eftir að hafa hlegið að brandarum til að byrja með, er óskiljanlegt.

Chris tók þessu ótrúlega vel. Minni menn hefðu slegið til baka eða kært Will og farið fram á milljónir dala í bætur. En ekki Chris, enda mun meiri maður en dekurdrengurinn Will sem telur sig geta slegið menn hægri og vinstri til að verja ímyndaðan heiður konu hans sem vitað er að hefur haldið fram hjá honum hægri og vinstri oft og mörgum sinnum.

Auk þess er engin þörf fyrir eiginmenn að verja heiður konu sinnar á þessum síðustu og verstu. Þær eru meira en fullfærar um að gera það sjálfar. Sjálfur hefði ég endurgoldið honum kinnhestinn á núll einni auk þess að brjóta á honum aðra hnéskelina à la Patrick Swayze Roadhouse style.

Auðvitað á að svipta hann Óskarnum og reka hann úr Akademíunni. Saksóknarinn í Los Angeles sýslu á svo að sækja hann til saka fyrir líkamsárás og loka hann inni. Loks á Chris Rock að fá dæmdar feitar skaðabætur sem hann getur gefið áfram til góðgerða. Ofbeldi er aldrei fyrirgefanlegt. Ofbeldi er vopn kúgara og aumingja.