Karma is a bitch

Táknar lauslega á því ylhýra að sá sem gerir slæma hluti og telur sig geta komist upp með þá, mun ávallt fá þá refsingu sem hann á skilið í fyllingu tímans. Þú uppskerð eins og þú sáir. Sérstaklega eftir #metoo byltingarnar tvær.

Hélduð þið typpalingarnir bara að þið kæmust upp með það til eilífðarnóns að tríta stelpur og konur eins skítinn undir skónum ykkar! Og dirfist svo að grípa til varna með málsóknum og blaðagreinum gegn þeim sem beina kastljósinu að ykkar afbrigðilegu hegðun.

Að missa lífsviðurværið vegna slæmrar og jafnvel glæpsamlegrar hegðunar er ekki þeim að kenna sem benda á þig, heldur þér sem hefur hagað þér eins og asni og fífl og talið þig geta komist upp með það óáreittur.

Hafðu vit á skammast þín og að gera eitthvað í þínum málum í stað þess að ráðast á þann aðila sem kom upp um þig og þín ljótu leyndarmál. Bara sorrí að þú komist ekki lengur heim með gagnfræðaskólastúlku eftir gigg í grunnskólanum hennar á fimmtudagskvöldi. Það er búið að skemma þær veiðilendur fyrir þér að eilífu.

Villta vestrið

Slæddist inn í matvöruverslun eftir æti síðdegis síðastliðinn föstudag. Inn stormuðu tveir sérsveitarmenn; litli og stóri í sömu erindagjörðum. Sá stærri var með Glock skammbyssu í hulstrinu og skothylki í handfanginu. Horfði á mig með fyrirlitningu þegar hann varð þess var að ég tók eftir vopnaburði hans innan um lítil börn og foreldra þeirra.

Er svona erfitt að skilja skotvopnið eftir í læsta boxinu í skottinu á sérsveitarbílnum ásamt MP5 vélbyssunni? Búast þeir við að verða fyrir árás við kaup á langloku og kók?

Lítill karl

Þegar karlakarlar hafa stuðað mig, hef ég vanalega reynt að draga úr upplifun minni og gefið þeim smá séns. Talið sjálfum mér trú um að ég þurfi kannski að kynnast viðkomandi betur og taka rök hans betur til greina. – En ekki lengur.

Eftir #metoo og #metoo2, þá gef ég mér bara að viðkomandi karlakarl líti á konur sem ambáttir og kynlífsleikföng. Að þær megi ekkert en þeir allt. Og hef oftar en ekki haft rétt fyrir mér. Eins og með útvarpsmann nokkurn sem ég hef ávallt talið stæka karlrembu og kvenhatara.

Kom mér ekkert á óvart að hans fyrrverandi myndi loks stíga fram og segja frá hegðun hans. Hótunum hans í mörg ár í tölvupóstum eftir sambandsslitin og öðrum leiðindum. Rosalega lítill kall.