Klappið

Mikið er ég búinn að bölva þessu blessaða Klappi Strætó bs. Greiðslukerfi sem er að taka yfir í öllum vögnum. Skanni sem hefur tekið mig viku að átta mig almennilega á.

Hef fengið margvíslegar kennslustundir frá bæði bílstjórum og samfarþegum með misjöfnum árangri. Klórað mér í hausnum þess á milli.

Kveikti loks á perunni þar sem ég sat bölvandi í myrkrinu á rúmbríkinni rétt fyrir svefninn með símann í hendinni að stilla vekjarann.

Að kalla fram QR-kóðann rétt áður en ég stíg inn í vagninn. Appið setur skjáinn þá sjálfkrafa í björtustu stöðu svo skanninn geti lesið kóðann hratt og auðveldlega. Badabing, badaboom!

Öllu er aflétt…

…á sex til átta vikum. Sama sveitta stemningin næsta mánuðinn og restin í einhverjum hænuskrefum til viðbótar. Barirnir aldrei lengur en til miðnættis eftir pöntun frá leiðinlega varðstjóranum með ljósu hárkolluna.

Hljómar fyrir mér eins og leiðindunum eigi að viðhalda fram að næsta afbrigði og næstu lokun. Af hverju má ekki bara opna í mánuð þar til allt fer aftur í skrúfuna…eða ekki? Veita okkur annan júlí eins og í fyrra.

Fólk er að drukkna úr leiðindum og höftum!

Djammkenndar draumfarir

Síðastliðna vinnuviku hef ég oftar en ekki verið staddur í einhverjum gleðskap meðan ég svaf sáttur á svæfli mínum. Nú síðast í brúðkaupi út á landi.

Þar var sómapar að endurnýja heit sín en hafði láðst að láta gesti sína vita að greiða þyrfti 34.900 kr. við innganginn í veisluna. Þar stóð ung kona með posa og heimtaði greiðslu fyrir sneið af brúðkaupstertunni, þriggja rétta máltíð og skemmtiatriði.

Þverhausinn ég og eitthvert lið með mér sögðum nei og skunduðum á næsta bar. Meira man ég ekki.