Betri en við hin

Ég hata montstatusa á facebook: Ég las svona margar bækur og er því betri en þið hin. Ég hljóp upp svona mörg fjöll og er því betri en þið hin. Ég kláraði master með barn á brjósti og mann í kulnun og er því betri en þið hin. Ég er í flokknum og er því betri en þið hin. Ég er í CrossFit og því betri en þið hin.

Af hverju getur þetta lið ekki bara gert sín afrek í hljóði og látið okkur hin sem þraukum frá degi til dags í friði? – Af því að þau eru betri en við hin.

Langa árið heldur bara áfram

Gleðilegt nýtt ár…eru ýkjur. 2020 heldur bara áfram þriðja árið í röð. Sami söngurinn. Sama sveitta stemningin með boðum, bönnum og leiðindum. Gildir einu þó Ómikron sé ekki að senda marga inn á spítala eða í gröfina. Ordnung must sein. Verður að hafa stjórn á skrílnum. Til þess var þessi veira fundin upp.

Omikronáramótin

Þórólfur er að koma sér fyrir fyrir framan tölvuskjáinn með síðasta minnisblað ársins. Útgöngubann og bann við að skjóta upp flugeldum á gamlárskvöld. Aðeins einn af hverju heimili má skakklappast í matvöruverslun og apótek. Öðrum verslunum, veitingastöðum og samgöngum verður bannað að starfa.

Gleðilegt nýtt ár!