Barist gegn sorginni

Ég hefði getað skilað inn dánarfjárskýrslu í vor og lokið skiptum á dánarbúi föður míns þá en ákvað að bíða aðeins og sjá til. Og viti fólk. Á mig dundu allskyns kröfur um greiðslur en einnig einhverjar tilkynningar um inneignir. Þurfti að greiða úr þeim öllum áður en ég skilaði á síðustu stundu í lok október. Kæra, rífa kjaft og leggja fram gögn.

Einhverra hluta vegna þurfti ég að berjast og sjá til þess ekki yrði valtað yfir þann gamla í gröfinni. Veit að hann hefði viljað það frekar en ég gæfist strax upp og tæki það athugasemdarlaust í ósmurt rassgatið. Færi styttri leiðina. – Með þrjóskunni og þolinmæðinni sneri ég við kröfum upp á 200.000 í inneign upp á 240.000.

Geri mér grein fyrir að svona syrgði ég sennilega gamla fólið. Vann úr sorginni með krepptan hnefa á lofti og háan róm. Rétt eins og hann hefði gert. Hann hefði aldrei samþykkt uppgjöf. Síst af öllu frá mér.

Þvílíkur léttir að skila inn skýrslunni og klára málið. Rétt eins og þungu fargi hafi verið létt af herðum mér. Hefði samt viljað kaupa stein á gröf þess gamla, en það var víst eitthvað dræm stemning fyrir því meðal hluta erfingjanna. Virðast hafa gleymt því að sá gamli barðist sjálfur fyrir skaðabótum frá ríkinu fyrir að hafa verið sendur milli barnaheimila í æsku. – Kaupi því bara stein í vor fyrir eigin reikning.

Lausaganga hatara

Fátt getur bætt gráan dag en að hitta kött á förnum vegi. Spjalla við læðu eða fress og sníkja smá klapp og klór. Hef aldrei skilið fólk sem er illa við ketti. Hvað þá vitleysingja sem beinlínis hata kisur og óska þeim dauða. Setja upp gildrur og skilja eftir fisk með frostlegi úti við. Sumir fávitarnir skjóta þá jafnvel út um gluggann hjá sér með litlum riffli.

Er ansi hræddur um að svona illa innrætt fólk hati líka börn. Og þá er illa komið fyrir þér og þarft að leita þér aðstoðar fagfólks. Að hata dýr og börn segir voðalega mikið um þig sem einstakling. Þá ert þú orðinn meindýr í samfélaginu og hættulegur. Og lausaganga þín ætti að vera bönnuð.

Óheimilt, bannað og má

Slæmar hugmyndir eru bráðsmitandi og berast hratt á milli manna rétt eins og Delta-afbrigðið. Lausaganga katta var bönnuð á Húsavík og núna ætlar Akureyri að gera slíkt hið sama. Og einhver helvítis Miðflokksmaður í bæjarstjórninni þar gerir ráð fyrir að fleiri bæir muni fylgja þeirra fordæmi.

Ætla rétt að vona að þessi ræpa rati ekki til Höfuðborgarsvæðisins. Næg eru nú leiðindin með öll boð og bönn yfirvalda vegna Covid-19. Engu líkara en að bannfíkn sé einnig smitandi. Að banna þurfi sem flest meðan þjóðin er móttækileg og hlýðin.

Bannsinnar ætla sér ekkert að leyfa okkur að hverfa aftur til fyrra lífs eftir að böndum hefur verið komið á veiruna. Barir fá ekki aftur næturopnun. Menningin fær að starfa eftir ströngum skilyrðum. Útihátíðir, bæjarhátíðir og 17. júní munu heyra sögunni til því að alltaf verða einhverjar takmarkanir í gildi út af hinu eða þessu en í raun bara eftir hentisemi stjórnvalda hverju sinni sem vilja ekki að fólk safnist saman.

Deili áhyggjum þeirra sem óttast að erfitt verði að fá aftur frelsið sem hefur verið tekið af okkur í Covid. Að „óheimilt“, „bannað“ og „má“ fái að hljóma löngu eftir að veiran hefur verið kveðin í kútinn. Það má ekki gerast! Sparka þarf duglega í punginn á þessum bannistum.