Talningarsamfélagið

Mikið var nú lífið ljúft þegar athygli fjölmiðla fór frá veirunni yfir á kosningaklúður í Borgarnesi. Dagleg tölfræði smitaðra hvarf og skita formanns kjörnefndar upp á eigið bak fór að skipta meira máli. Endurtalning fjarri augum og án samþykkis umboðsmanna flokkanna. Good times!

En svo hættum við að passa okkur og Þórólfur neyðist til að byrsta sig og benda á öll smitin sem eru að sliga vanbúinn Landspítalann. Nú þarf að loka öllu upp á nýtt. Slaufa jólahlaðborðunum, jólatónleikunum, leiksýningunum og djamminu. Ég sem var farinn að hlakka til jólahlaðborðsins í byrjun desember.

Þórólfur er reyndar farinn að minna mig á húsvörðinn í „Með allt á hreinu“. En við erum hætt að hlusta og vöðum bara framhjá honum á skítugum skónum og skemmum skúringuna. Athyglin er horfin og við erum hætt að sjá rökin fyrir hreinu gólfi. Viljum bara frið fyrir þessari bannsettri veiru.

Og eflaust þarf að takmarka enn meira með 200, 50 eða 20 mönnum, lokun fyrirtækja og raða inn í verslanir. En það leysist allt ef við hlýðum Víði og þiggjum þriðju sprautuna í handlegginn að sögn Þórólfs. Svo er einhver undratafla á leiðinni sem á að draga úr líkum á sjúkrahússinnlögn sýktra einstaklinga.

Liggur við að maður stökkvi á vagninn með Áslaugu Örnu og Bjarna Ben. Nenni þessum leiðindum ekki mikið lengur. Einhvern tímann verðum við að sleppa takinu og leyfa veirunni að blása óhindrað yfir landið eins og hverri annarri kvefpest til að ná hjarðónæmi. Getum ekki hjakkað í sama farinu næstu árin með lokanir og opnanir á víxl.

Ég þekki reyndar engan persónulega sem hefur fengið Covid-19. Skrítið!? Kannski passar mín kúla sig bara og sinnir persónulegum sóttvörnum vel. Vonandi dugir það og ég mun ekki þekkja neinn sýktan í framtíðinni.

Tröllólfur stelur jólunum…aftur!

Skröggólfur og er að gíra sig upp í að aflýsa jólunum með hertari aðgerðum og almennum leiðindum landsmönnum til mikillar gleði. Hann viðurkennir þó að hafa misst salinn og að samstaðan sé ekki eins góð og áður. Jafnvel ríkisstjórnin er orðin hundleið á að kóa með honum og vill bara að peningarnir haldi áfram að flæða. Hætta þessum leiðinda fjöldatakmörkunum og hólfaskiptingu sem engum tilgangi þjónar til lengdar.

En nei, Sóttólfur hafði af okkur sumarlokin og ætlar svo sannarlega að hafa af okkur hátíðirnar líka. Hér verða engin jólahlaðborð eða tónleikar. En kannski líka vegna þess að fólk nennir ekki lengur að nota grímur í mannþröng eða þvo sér um hendurnar og spritta. Er uppi í handarkrikum hvers annars í eilífum sleik.

Sjálfur nota ég alltaf grímu í strætó. Sérstaklega í lengri ferðum. Hinir farþegarnir horfa á mig með fyrirlitningu og hósta svo kæruleysislega út í loftið. Persónulegar sóttvarnir eru lykilinn að því að halda veirunni niðri. Ekki einhverjar fjöldatakmarkanir, smalanir á fólki milli sóttvarnarhólfa, sóttkvíar og lokunartímar skemmtistaða. Bara smá handþvottur, sprittun, grímunotkun í margmenni og láta vera að troða fingrunum í smettin á okkur.

Fokkaðu þér dagurinn

Eftir erindleysu mína til sýslumanns ákvað ég að gera eitthvað gott úr öllu og verslaði aðeins fyrir mömmu. Eina góða sem kom út úr deginum.

Á heimleiðinni henti ég mér út í Lágmúla og inn í Nettó eftir smáræði sem mig vantaði í raun ekki. En nei, kassarnir vildu ekki kort frá Íslandsbanka. Hvorki þeir hefðbundnu né sjálfsafgreiðslukassarnir. Your money is no good here, takk fyrir.

Þrammaði heim í fýlu með þrumuský hangandi yfir mér en samt ekki því mig vantaði ekkert af þessu drasli. Stundum á maður ekki að fara á fætur. Síst af öllu á mánudögum.