Við erum búin að fá nóg!

Ég er svo hrifinn af frelsi einstaklingsins að ég set upp grímu þegar ég versla eða ferðast með strætó. Það er réttur minn! Jafnvel þó níu af hverjum tíu kjósa að gera það ekki og horfa á mig af vandlætingu. Persónulegar sóttvarnir eru undir hverjum og einum komnar. Ég ákveð að setja sjálfan mig í fyrsta sæti. Aðrir verða að ákveða hvort þau vilja taka áhættuna á Delta-afbrigðinu..

Sóttólfur blessaður er búinn að missa salinn. Þjóðin nennir þessum takmörkunum ekkert lengur. Jafnvel þó hann týni til fésveltan Landsspítala, RS-vírus og haustflensu. Fólk er komið með upp í kok og kemur ekki lengur auga á rök fyrir áframhaldi í takmörkunum. Vill fá samfélagið fyrir covid-19.

Þórólfur og hans embætti stóðu sig virkilega vel í gegnum dimma tíma fyrir tilkomu bóluefnanna. Svo fóru þau að tala með rassgatinu. Aflýsa ágúst og næstu mánuðum í kjölfar algjörs frelsis í mánuð þar á undan. Heimta samkomutakmarkanir marga mánuði og ár fram í tímann. Og það þrátt fyrir bólusetningu þjóðarinnar. Þá fór að lokast fyrir hlustir landans.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu er undir sömu sök seld. Heimtar að áfram verði skellt í lás á miðnætti og jafnvel fyrr hjá veitingahúsum, krám og skemmtistöðum. Svo þau þurfi ekki að vinna næturvinnu um helgar. Sem þau þurfa samt að inna af hendi samanber djöfulskapinn sem gekk á síðastliðna nótt niður í miðbæ og í úthverfum höfuðborgarsvæðisins. Fávitunum er slétt sama um opnunartíma skemmtistaða. Þeir slást, berja og nauðga þegar þeim sýnist.

Nú hyllir í frekari tilslakanir ef ekki algjöra opnum þrátt fyrir muldur Sóttólfs og lögreglunnar. Við viljum fylgja fordæmi frændþjóða í norðri og Vestur-Evrópu. Taka áhættuna og sjá hvernig til tekst. Efast samt að auðvelt verði að skella aftur í lás ef nýtt banvænt afbrigði birtist. Við erum búin að fá nóg!

Lífið er stutt

Lífið er stutt. Njótum hverrar mínútu!

Fylgdi ungri og glæsilegri konu síðasta spölinn í dag. Konu sem ég hef þekkt síðan hún var lítil, fyndin og sparkaði í sköflunginn á mér þegar ég heimsótti vin minn bróður hennar og kallaði mig svo perra og homma í kaupbæti.

Var að hugsa um að láta netstreymi frá athöfninni duga, en gat engan veginn sæst á það og bara varð að mæta. Hefði sennilega grátið allan tímann við tölvuna í vinnunni en náði að harka af mér í kirkjunni (strákar mega víst ekki gráta samkvæmt pápa heitnum).

Virkilega falleg athöfn. Þurfti oft að kyngja kekki sem myndaðist í hálsinum og ræskja mig. Var svo átakanlegt að sjá sorgina hjá foreldrum hennar, systkinum og frændfólki. Gleymdi öllum nándarreglum og faðmaði þau án áhyggna af einhverri veiru í huga Sóttólfs.

Hvíl í friði elsku vinkona.

Fulltrúalýðræðið er dautt!

Þessi vitleysa að kjósa 63 fulltrúa inn á Alþingi til að koma fram vilja þjóðarinnar er löngu úrelt dæmi. Þarna raðast inn misvitrir vitleysingar með skrítnar skoðanir sem ríma ekkert við vilja kjósenda. Bjánar eins og Birgir Þórarinsson sem hoppaði milli flokka í dag.

Löngu tímabært að koma á beinu lýðræði í gengum netið.