Vinkona tveggja alka

Kata Jak virkar á mig eins og vinkona tveggja alka sem hefur einsett sér að hjálpa þeim að tæma flöskuna svo þeir verði ekki ofurölvi. Fattar ekki að þeir hafa falið aðra flösku niður í geymslu sem þeir munu teyga þegar hún er sofnuð og samt rústa íbúðinni.

Opin rými

Öll mín starfsár á vinnumarkaði hef ég unnið í opnum rýmum. Og þau eru loksins að detta í tísku hérlendis einmitt núna með kröfum opinbers- og einkareksturs um minna húsnæði og færri fermetra fyrir hvern starfsmann. Skilrúm í stað veggja. Opnir básar í stað lokaðra skrifstofa.

Verði ykkur að því! Lítið fjör er að starfa í fuglabjargi. Hvað þá við þjóðbraut blaðrandi samstarfsfólks. Eini mögulegi flóttinn eru þráðlaus heyrnatól og endalaus hlaðvörp á netinu. Eða hverfa inn í sjálfan sig og eigin hugsanir. Loka hlustunum.

Verst er þó allt þetta lið sem hangir á öxlunum á þér. Skoðandi hvað þú ert að gera á skrifborðinu og í tölvunni. Eins og því komi það eittvað við.

Opin rými eru þó ekki alvond. Þú losnar við alla hurðaskellina.

Status quo

Óbreytt ástand styrkir sig í sessi eftir kosningar. Þorri fólks vill víst láta taka sig áfram í ósmurt í fjögur ár í viðbót af íhalds- og afturhaldsþríeykinu. Þrauka önnur fjögur ár af leiðindum, stöðnun, boðum, bönnum og spillingu.

Leyfa frekari einkarekstur (einkavinavæðingu) á bönkum, heilbrigðisþjónustu og velferð. Viðhalda viðbjóðnum í útgerðinni. Ulla áfram framan í aldraða og öryrkja. Stinga stjórnarskrárbreytingum áfram undir stól. Sýna okkur áfram fingurinn.

Þessari þjóð er ekki viðbjargandi! Þorri Íslendinga eru apaheilar sem leitar alltaf aftur til þeirra sem kvelja þá mest. Svo kunnum við hvorki að telja eða að innsigla atkvæði. Og af hverju merkjum við enn X með blýanti sem auðveldlega er hægt að stroka út? Notum bláan penna eins og við aðrar undirskriftir!