Ekki á allt kosið

Sóttólfur er farinn að ókyrrast yfir öllu þessu andskotans frelsi sem við fáum að njóta og gælir við að skella aftur í lás og slá. Gott ef hann aflýsir ekki bara kosningunum í leiðinni. Allt er mögulegt. Enda fer maðurinn með alræðisvald.

Grímulaust fólk í strætó og Bónus er byrjað að horfa skringilega á mig. Eins og ég sé að gera þeim eitthvað með því að klæðast grímu. Enda kominn í minnihluta. Meira að segja gamla fólkið mætir kokhraust án grímu.

Líður eins og eina edrú gaurnum í teitinu sem er að eyðileggja stemninguna fyrir öllum hinum. Sorry, en mig langar bara ekkert til að smitast af einhverju Delta afbrigði.

Áfram Ísland!

Eftir að hafa tekið það í rassinn upp í Glæsibæ og fengið mér borgara á KFC, þá þrammaði ég í gegnum Laugardalinn í trjágöngum framhjá Húsdýragarðinum og grasagarðinum. Áði um stund á steinsteyptum tröppukanti við höfuðstöðvar KSÍ við þjóðarleikvanginn og starði á þýska tæknitrukka sem eiga eflaust að sýna frá landsleiknum á morgun.

Laust niður í huga mér að barátta fólks fyrir að typpamenning KSÍ hverfi á braut með fráfarinni stjórn er draumsýn ein. Sjáið bara allt liðið sem hefur lagt vögnum sínum í kring um KSÍ og heimtað að fótboltinn fái að vera í friði fyrir #metoo. Sami sveitti hópurinn og reis upp á afturfæturna þegar afburðarlið stelpna í körfubolta heimtaði að fá að mæta jafningjum sínum strákameginn.

Ó, nei, bíðið við! Það má ekki svipta drengi sjálfstraustinu með því að tapa fyrir stelpum. Ó, nei, bíðið við! Það má ekki svipta karlaliðin karlmennsku sinni með því að banna þeim að áreita konur og þaðan af verra. Má bara alls ekki segja þeim að þeir eru ekki hálfguðir sem leyfist allt því þeir geta sparkað í boltatuðru.

ÁFRAM ÍSLAND!

Látið líta undir vélarhlífina!

Eftir að hafa kyngt þá er stuttur vegur að því að taka það í rassinn. – Nei, ég er ekki að tala um kynlíf.

Eftir magaspeglun fyrir mánuði síðan mætti ég í ristilspeglun í dag. Eins og aldurhnignir menn eiga að gera í kringum fimmtugt. Alls ekki eins mikið mál og ég var búinn að mikla fyrir mér. Sérstaklega ekki ef engir separ eða önnur mein finnast.

Er hinsvegar með Helicobacter pylori bakteríuna eins og meira en þriðjungur fólks. Hún veldur bólgum sem geta leitt til magasárs. Fer á viku lyfjakúr til að fjarlægja hana úr maganum. Bakterían smitast sennilega með drykkjarvatni og svo milli ættliða (móðir/sonur). Bæði móðurafi minn og mamma fengu magasár svo ég er ekki hissa.

Er þrátt fyrir allt bara í nokkuð góðum málum eftir að hafa kyngt og tekið það í rassinn. Næsti viðkomustaður er Grindr….DJÓK. – Farið endilega í tékk. Skaðar ekkert að láta líta undir vélarhlífina öðru hverju. Fyrirbyggja þannig verri útkomu síðar á lífsleiðinni.