Árar lagðar í bát

Síðustu tvær eða þrjár vikur hef ég meðvitað látið vera að tjá mig í athugasemdakerfum. Í hvert skipti sem mig hefur klæjað í fingurgómana, hef ég í staðinn gripið penna og skrifblokk og látið vaða. Og það hefur virkað vel. Orðin rata á pappír í stað netsins.

Vakna mun sáttari daginn eftir þess vitandi að ég lét ekki ginna mig út í algjörlega gagnlausa umræðu um ekki neitt sem skiptir nokkru máli. Að tjá sig á netinu er eins og að tala við krepptan hnefa.

Að rífast við rasshausa, apaheila og þverhausa í athugasemdakerfum netmiðla er svo mikil sóun á tíma að það hálfa væri nóg. Bróðurpartur heillar viku sumarleyfis míns fór í að munnhöggvast við typpalinga á netinu sem skildu ekki af hverju viss veðurguð fengi ekki að sjá um brekkusöng á Þjóðhátíð sem ekkert varð að. Algjör sóun á annars góðu fríi.

Sést best á öllum viðbjóðnum sem hefur lent á fórnarlömbum og öðrum sem hafa bent á þöggunartilburði KSÍ. Formaður þess hefur nú þegar sagt af sér, en af hverju ekki öll stjórnin! Á typpamenningin bara að fá að halda áfram. Eiga strákarnir okkar bara áfram að fá að vaða yfir stúlkur með klofgripi og hálstaki ef þær vilja ekki þýðast þá?

Hvað ef…?

Ég tala digurbarkurlega um að láta af öllum takmörkunum og talnaleikfimi yfirvalda. Þjóðin sé meira og minna bólusett. En hvað ef helvítis veiran nær mér? Ef ég þarf að leggjast í rúmið og sóttkví í tvær vikur! Jafnvel inn á gjörgæslu og í öndunarvél.

Aldrei að segja aldrei. Veiran er lævís sem syndin. Finnur sér alltaf leið.

Auðvitað fer ég í tékk við minnstu einkenni og hlýði sóttvörnum. Fyrir mína nánustu og alla aðra. Þigg þriðja skammtinn og geng í takt.

En það er ekki þar með sagt að ég sé sammála sóttvarnalækni og heilbrigðisráðherra. Sagan dæmir okkur öll að lokum. Ekki að það skipti einhverju höfuðmáli..

Látum af þessum leiðindum

Ég geri mér grein fyrir að bólusetningar eiga ekki að lækna allt heldur að draga úr möguleika á smitum og draga úr einkennum þeirra sem smitast. Rétt eins og flensusprautur hafa gert síðustu áratugi.

Eins er farið með bólusetningar gegn Covid-19. Faraldurinn er sennilega orðinn að flensu í æðum flestra og ætti að vera sinnt sem slíkum. Klárum að bólusetja restina af þjóðinni og gefum aukaskammta til þeirra sem hafa bara fengið tvo.

Auðvitað eigum við áfram að sinna eigin sóttvörnum af elju og vernda viðkvæma hópa og aldraða af kostgæfni. Dæla auknu fjármagni í spítala landsins svo þau geti mætt þeim sem veikjast alvarlega með mun stærri bráðamóttöku.

En látum af þessum lokunum og takmörkunum sem tíðkuðust fyrir bóluefnin. Hættum þessum eltingarleik við tölur um smitaða, í og úr sóttkví, einangrun og gjörgæslu. Lítum á óværuna eins og hverja aðra kvefpest og höldum áfram með lífið án skimunar, tölfræði og almennra leiðinda.

Við erum að mestu bólusett! Hættum þessari varkárni, takmörkunum og lokunum sóttvarnalæknis og heilbrigðisráðherra! En það er auðvitað borin von fyrir kosningar. Yfirvöld þora engu að breyta síðustu vikurnar.