Dómstóll götunnar II

Asninn sem ég er, gerðist virkur í athugasemdum um brottrekinn brekkusöngvara sem er talinn með óeðlilegan smekk fyrir grunn- og framhaldsskólastúlkum sem hafa sótt tónleika hans síðustu fimmtán árin.

Tveir hópar kvenna tóku hann niður um leið og ljóst var að hann myndi troða upp á árlegri sukkhátíð suður af landinu. Þótti þeim nóg komið og kröfðust þess að hann myndi sitja af sér hátíðina í ár og birtu 32 frásagnir á TikTok máli sínu til stuðnings. Nefndin afboðaði, mér og mörgum öðrum til mikillar undrunar.

Hefði ekki fyrir fram trúað að svo yrði. Kannski er ný kynslóð tekin við kyndlinum sem vill draga úr megni hrútalykt hátíðarinnar í gegnum tíðina. Almannarómur segir að leit sé hafin af konu til að stýra brekkusöngnum. Skásta tryggingin fyrir að gamlar áreynslu-, áreitnis- eða nauðgunarsögur verði ekki dregnar upp á yfirborðið.

Í leiðinni losnaði nefndin við gæslustjórann og hans lið. Gaur sem mótmælti meðferðinni á söngvaranum og sagði þvi starfi sínu lausu og tók einhverja skoðanabræður sína með sér. Gott og blessað! Verður þá hægt að skipa alvöru gæslulið sem tekur alvarlega þá skyldu sína að vernda alla hátíðargesti. Sama hvers kyns þau eru.

Flest af því liði sem ég hef verið að rífast við á athugasemdakerfunum dregur fram rökin að dómstóll götunnar megi ekki dæma manninn, heldur sé hann saklaus uns sekt sé sönnuð fyrir þar til bærum dómstólum sem hafa brugðist fórnarlömbum kynferðisofbeldis aftur og aftur. Leitt að þurfa að tilkynna þessu liði sem enn trúir á jólasveininn að þeir tímar eru liðnir.

Dómstólar landsins vilja lítið sem ekkert gera svo að fólkið verður að taka málin í sínar eigin hendur á samskiptamiðlum netsins. Öfgar og AGN hafa safnað saman þessum frásögnum síðustu tvö ár frá óskyldum aðilum. Lengi hefur verið vitað að ekki væri æskilegt að ráða téðan gítargaulara á samkomur unglinga sökum sókn hans í að dansa við og fara í sleik við barnungar stelpur á þessum viðburðum.

Þangað til lögregla og dómstólar landsins hysja upp um sig buxurnar og fara að hlusta á fórnarlömb áreitis og kynferðisofbeldis, þá verður landslagið svona. Menn teknir reglulega niður á netinu fyrir sóðaskap sinn í gegnum tíðina svo þeir haldi ekki bara áfram á sömu braut óáreittir.

Hið minnsta vita unglingsstúlkur núna hvaða mann þessi reðurguð hefur að geyma og geta varað sig á honum. Það er eitthvað.

Þess vegna!

Gerðist í eldgömlum og úr sér gengnum Irisbus strætisvagni með númerinu EF – 930.

Ég spotta laust sæti aftast í vagninum og held þangað. Um leið og ég geri mig líklegan til að setjast og koma bakpokanum fyrir, þá botnar bílstjórinn bíldrusluna með þeim afleiðingum að ég flýg í vegginn aftast og missi bæði símann minn og bakbokann. Rétt næ að halda mér á fótum með því að krækja utan um eina stöngina. Hrópa um leið „helvítis fíflið þitt“ að bílstjóranum, enda ekki fyrsta skipti sem ég hef ferðast með þessum fýlupoka, durg og dóna.

Lætur farþegana alltaf ganga að vagninum. Stöðvar langt fyrir aftan eða framan farþegahópinn svo við þurfum að ganga smá spöl að vagninum. Býður aldrei góðan daginn. Og gefur duglega í svo við fáum nú örugglega smá flugferð áður en við setjumst.

Þetta er ástæðan fyrir því að bara furðufuglar eins og ég nenna að ferðast með strætó. Dóna- og durgsleg hegðun bílstjóra og úr sér gengnir vagnar sem ættu fyrir löngu að vera búnir að fá kærkomna hvíld.

Það er engu líkara en að allir séu að bíða eftir þessari blessaðri Borgarlínu sem mun sennilega seint eða aldrei koma, og ef þá, í mjög útvatnaðri mynd. Á meðan mega vagnar Strætó grotna niður og æ vonlausari bílstjórar stýra þeim.

Myndi kaupa mér bíl strax á morgun ef ég ætti einhvern aur. En þangað til ég vinn þann stóra, neyðist ég víst til að ferðast með Strætó og leyfa bílstjórum eins og þessum ulla á mig og niðurlægja.

Nefndir og ráð

Hvað ætli að það séu margar nefndir að störfum í landinu um þessar mundir? Þúsund og eitthvað bara skipaðar af Alþingi. Svo úrskurðarnefndir um alla skapaða hluti, skipaðar reiðum, litlum lögfræðingum úr stuttbuxnadeild Sjálfstæðisflokksins. Loks eftirlitsnefndir yfir öllum sköpuðum hlutum, skipaðar flokksgæðingum fjórflokksins.

Svona eins og þessi sem fylgist með lögreglunni og skammar þegar þau hósta í átt að flokknum eða meðlimum hans sbr. Ásmundarsalarmálið. Lögreglumennirnir skammaðir fyrir að hafa komið auga á framapotara flokksins í veislunni og nefnt það í búkvélarnar sínar. Bjarni Ben. fær hinsvegar ekki svo mikið sem sekt fyrir að brjóta sóttvarnarreglur.

Fjölmiðlanefnd vakir yfir öllum eins og haukur, stofnar svo eigin fjölmiðil og kallar hann Fjórða valdið og með því rekur löngutöng framan í gjörvalla blaðamannastéttina. „Við gerum það sem okkur sýnist en þið fáið aðeins að gera það sem við leyfum“. Félagi Napóleón enn og aftur.

Stundum finnst mér eins og að nefndir séu býsna einsleitar. Skipaðar fólki úr sömu fjórum flokkunum og þá aðallega lögfræðimenntuðu fólki sem vantar eitthvað að gera að námi loknu og fær þarna inni þar til eitthvað betra býðst. Einu kröfurnar eru að geta barið saman neitunarbréf með smá rökum og tilvísanir í dómafordæmi og lagabálka. Í sem fæstum orðum að blása reyk upp í rassgatið á kærendum og draga úr þeim kjarkinn.

Leggjum niður allar nefndir og ráð. Getum sennilega greitt upp fjárlagahalla veirunnar, greitt öldruðum og öryrkjum mannsæmandi lífeyrir og átt einhverjar krónur eftir á einu kjörtímabili.