Dreggjar banns og takmarkana

Nú þegar bólusetning fer að ná mörkum hjarðónæmis, þá er engu líkara en að sóttvarnalæknir og heilbrigðisráðherra vilji ekki sleppa takinu á fjöldatakmörkunum og bönnum. Losa beislið af löndum sínum og hleypa okkur frjálsum inn í hrímkalt sumarið.

Mikið held ég að þau langi til að draga allt á langinn fram á haust. Bara svo þau geti líka haft allar samkomur í júlí og ágúst af djammþyrstum Íslendingum. Kótilettuna, Þjóðhátíð, Gaypride og Menningarnótt.

Fiskidagurinn var sleginn út af borðinu af Samherja sem vill ekki splæsa sporði ofan í vanþakkláta Íslendinga sem skilja ekki viðskipti við aðrar þjóðir. Að þar þurfi að greiða mútur og svíkja undan skatti. Hirða svo arðinn af þjóðinni og fara með til Íslands.

Enn þarf að bera grímur í strætó og einhverju fleira. Veit það ekki. Hef samt séð strætóbílstjóra horfa í gegnum fingur sér og hleypa grímulausum inn í vagninn. Farþegum er fyrirgefin gleymskan.

Fólk nennir þessu varla mikið lengur. Finnst nóg komið af þessum boðum og bönnum. Sérstaklega þar sem að hjarðónæmið er farið að kikka inn og svo stutt er í að allar takmarkanir hverfi.

Sóttvarnalæknir og heilbrigðisráðherra verða bara að eiga það við sig sjálf ef þau munu sakna þess að fá að hafa vit fyrir þjóðinni og setja þeim boð og bönn.

Djammviskubit eða djammbann?

Mikið var nú ljúft að fá staðfestingu á því að vera ekki einn um að vera á móti varanlegri styttingu opnunartíma öldurhúsa og skemmtistaða niður í miðbæ. Bæði borgarstjóri og dómsmálaráðherra vilja láta allar skerðingar ganga til baka.

Borgarstjóri vill ekki hverfa 20 ár aftur í tímann þegar allir staðir lokuðu klukkan þrjú og bærinn logaði í slagsmálum fram undir morgun meðan leigubílarnir ferjuðu svefndrukkið fólkið sem var að renna af í úthverfin.

Dómsmálaráðherra finnst fáranlegt að ganga á bak orða sinna um að um tímabundnar skerðingar hefði verið að ræða meðan faraldurinn gengi yfir landið. Hvernig ætti að virkja þjóðina aftur í slíkar lokanir og fjöldatakmarkanir ef ekki væri staðið við gefin loforð núna.

Vertarnir niður í bæ benda réttilega á að fáranlegt sé að miða við fordæmalaust síðastliðið ár þegar staðirnir voru lokaðir í sex mánuði og opnir með miklum takmörkunum þess á milli. Þegar fólk hittist varla heldur í heimahúsum vegna sóttvarna. Auðvitað var mun minna um tilkynnt ofbeldi og nauðganir. Þar sem enginn hittist, þar gerist ekkert.

Í fyrra á 17. júní máttu 500 einstaklingar koma saman. Núna eru þeir 300. Samt er stefnt að losun allra takmarkana í mánaðarlok. Yeah right! Verður gaman að sjá það verða að veruleika.

Það má ekki pissa á bak við skúr!

Eiður Guðjohnsen neyðist til að fara í tímabundið frí til að vinna í sínum málum. Bara af því að einhver náði af honum mynd að míga á almannafæri við Ingólfstorg eftir djamm. Eitthvað sem flestir karlar hafa einhverju sinni gert á lífsleiðinni einu sinni eða tvisvar.

Stöð 2 ætlar hinsvegar ekki að setja hann í skammarkrókinn fyrir að pissa á bak við runna.