Dómstóll götunnar

Ég taldi mig skilja #metoo2. Hvaðan sú bylgja kom. Hafði rangt fyrir mér. Hún snýst um að frægir karlar hafa fengið allt of lengi að áreita og misnota konur án athugasemda eða afleiðinga. Þá er það eina í stöðunni fyrir þolendur að koma fram undir nafni og segja sína sögu fyrst að kerfið virðist ekki ætla að gera nokkurn skapaðan hlut frekar en fyrri daginn.

Í fyrstu skildi ég ekki alveg þessa útilokunarmenningu. Að hafa bæði mannorð og atvinnu af meintum gerendum í gegnum netið. Að leyfa þeim ekki áður að eiga dag fyrir dómstólum sem skæri úr um sekt eða sýknu. Eitthvað sem þeir þurfa reyndar í fæstum tilvikum að ganga í gegnum. Orð gegn orði og allt það. Karlinn er látinn njóta vafans. Konan hlýtur að vera móðursjúk.

Dómstóll götunnar er eina úrræði þolenda sem stendur. Meðan Héraðsdómar, Landsréttur og Hæstiréttur dæma áfram gerendum í vil.

Af sjálfstæðum flokki

Þrátt fyrir hve lítið ég treysti Sjálfstæðisflokknum, þá eiga þau hrós skilið fyrir að halda prófkjör. Eitthvað sem aðrir þorðu ekki að gera og mættu taka til fyrirmyndar í stað þess að stilla upp eða halda gerviprófkjör með þröngu vali.

Að því slepptu, þá er Sjálfstæðisflokkurinn meinsemd samfélagsins og ætti að sitja hjá við næstu ríkisstjórnarmyndun. Og jafnvel þar næstu. Leyfa okkur aftur ná fótfestu án eftirgjafar og dekurs við útgerðina og stórfyrirtæki. Leyfa okkur að byggja aftur upp norrænt velferðarkerfi. Leyfa öðrum að vera til en aðeins hinum ofurríku í Garðabænum.

Eins frjálslynd og sjálfgræðgis fólk þykist vera, þá eru þau ósköp kassalaga þegar á reynir. Fáu eða engu má breyta til betri vegar. Sérstaklega ekki ef það snýst um auðlindir eða aðgengi að ímynduðum auðlindum eins og áfengi, tóbaki, veipi og snuffi. Slíku þarf bara að setja þröngar skorður og skattleggja upp í rjáfur. Þrátt fyrir frjálslyndið.

Í litlum kassa

Loksins þegar við erum að rísa upp úr farsóttarþokunni með æ fleiri bólusetta einstaklinga og nálgumst hjarðónæmi. Og fleiri bandaríska ferðamenn til landsins með vottorð upp á vasann, þá krafsa sig upp á bakkann vofur afturhaldsins sem þrá ekkert frekar en höftin áfram. Enda leið kassalaga fólki ósköp vel þegar allt var lokað og allt var bannað. Lífið var einfalt og gott…fyrir þau.

Kassarnir vilja hafa af veitingafólki leyfi þeirra til að hafa opið fram eftir nóttu um helgar ef þeim sýnist svo og sjá einhvern hag í því. Að slíkt komi í veg fyrir ofbeldi um nætur. Samt liggur maður milli heims og helju eftir síðastliðna nótt eftir hnífsstungu og tveir í viðbót voru barðir í götuna í miðbænum. Jafnvel þó að stöðunum hafi verið lokað ellefu og liðinu sópað út með sorpinu fyrir miðnætti. Skrítið?

Svo ekki sé talað um öll heimateitin sem halda fyrir okkur vöku um helgar vegna styttri opnunartíma. Lögreglan vill þó gera lítið úr þeirri staðreynd einhverra hluta vegna. Hentar þeim ekki. Nenna sennilega ekki að vinna um helgarnætur og kjósa frekar að vera í friði á Hverfisgötunni með kruðerí, kaffi og djúpa sófa. Skoða klám og leggja sig í staðinn fyrir að sinna útköllum og halda friðinn.

Svona byrjar þetta. Spurningin um hvort við viljum hverfa aftur til fyrra horfs eða bara halda höftunum áfram fyrir kassalaga fólkið (sem engum líkar við) og getur ekki unað okkur hinum að eiga möguleika á að djamma fram eftir nóttu um helgar.