Hér er gott að búa!

Ný hýbýli hafa marga góða kosti sem skáka ókostum þeim að búa í fjölbýli. Til að mynda eru svalir beggja meginn á þriðju hæðinni minni. Get látið gusta í gegn á hlýjum sumardögum. Sleikt sólina allan daginn og leyft vorinu að læðast inn eins og í dag frá hafi handan Sæbrautar skammt frá.

Er hálftíma að þramma niður í miðbæ meðfram sjónum. Enginn strætó úr úthverfi Kópavogs. Eitthvað sem ég nennti sjaldan að gera. Draumur í dós 17. júní, í gleðigöngunni og á menningarnótt. Þegar slíkt verður aftur leyft og mögulegt. Dagleg gæði þess á milli.

Hér í litla Stokkhólmi er ljúft að rölta í Brauð og co. á helgarmorgnum og leyfa gelgjunni sem afgreiðir að minna mann á hve miðaldra maður er í raun orðinn. Koma við í Krambúðinni eftir því sem gleymdist í búðarferðinni deginum áður. Reka nefið inn til Pylsumeistarans eftir grillmeti. Kjaga loks heim og leggja sig á ný.

Hér er gott að búa!

Þjónkun við efri-millistétt

Þjónkun landsmanna við sóttvarnarráðstafanir (refsiaðgerðir fyrir glæpi efri-millistéttar sem svíkur sóttkví) er ótrúleg. Í stað þess að loka landamærunum er mokað hér inn fólki og ætlast til af þeim að halda sóttkví í fimm daga. Að vísu valkvætt að dvelja á sóttvarnarhóteli (fangelsi með engri útivist) eða heima eða á bókuðum gististað, því Alþingi klúðraði lagabálknum upp á bak.

Engin stoð í lögum er að loka fólk inni gegn vilja þeirra í fimm daga í hálf gluggalausu hóteli án útivistarleyfis. Fangelsi mega ekki einu sinni starfa án útisvæðis fyrir vistfólk sitt. Því skyldu sóttvarnarhótel fá að gera slíkt?

Í stað nauðungarvistunar farþega sem koma til landsins, á að stofna sóttvarnarlögreglusveit sem fer heim til fólks til að tékka hvort það haldi ekki örugglega sóttkví. Í hvaða raunveruleika erum við eiginlega komin! 1984 eftir George Orwell. Getið alveg eins sett öklabönd á liðið. Sennilega ódýrara en að halda úti fulltrúasveit til að knýja dyra og vera með nefið ofan í hvers manns koppi.

Allar þessar sóttvarnir virðast vera byrjaðar að snúast upp í æfingar í fasisma. Hvernig á að stjórna lýðnum og láta okkur hlýða. Sársaukaþröskuldi þjóðarinnar var náð með sóttvarnarhóteli. Guð hjálpi yfirvöldum ef þau setja á útgöngubann yfir nætur. Ég myndi að minnsta kosti aldrei hlýða því og rjúka beint út eftir miðnætti. En yrði aldrei handtekinn því hér er sár skortur á lögregluþjónum.

Ár er liðið af leiðindum og ekkert virðist ganga að bólusetja landann. Sífelldar tafir og vonbrigði með bóluefni. Fáum sennilega ekkert ferðasumar innanlands með þessu áframhaldi. Engar bæjarhátíðir, útilegur, verslunarmannahelgi, gleðiganga eða menningarnótt. Megum þakka fyrir að fá að fara undir bert loft til að horfa á sólina, skýin og hafið. Allt annað verður áfram bannað og lokað.

Ekkert sumar verður á meðan haldið er áfram á sömu braut þar sem frú forsætisráðherra „hugnast ekki“ að loka landinu fyrir óþarfa ferðalögum. Brynjar „Trump“ Níelsson varð svo bara að fara til Spánar því mágkona hans fékk heilablóðfall sem hún hefur blessunarlega náð sér sæmilega af miðað við myndbirtingar frá garðpöllum og golfvöllum þar ytra. Á meðan neita aðrir Íslendingar sér um að mæta í útfarir og brúðkaup beggja vegna hafsins. En það er ekki sama Jón og Séra Jón. Sjálfstæðisfólk er undanþegið sóttvörnum og almannavörnum.

Ég meika engan veginn annað ár af þessum leiðindum. Fimmtu, sjöttu, sjöundu bylgju. Smáskammta opnunum og tilslökunum og svo öllu skellt aftur í lás því fólk bara verður að fá að fljúga á milli landa. Fara í sólina til Tenerife. Golf á Spáni. Efri – millistéttin myndi bruna til Flórída ef það væri smuga. Skítt með banvæna veiru sem er á ferli og getur húkkað sér aftur far með þeim heim á Klakann og hleypt öllu í loft á ný því þau vilja ekki ferðast um eigið land í staðinn.

Efri-millistétt hóf þennan dans fyrir ári síðan með veiru í farteskinu frá skíðalöndum Sviss og Austurríkis. Efri-millistétt viðheldur ástandinu með frekju sinni um ferðafrelsi í miðjum heimsfaraldri til sólarlanda meðan almúginn reynir að passa eigin sóttvarnir með vegabréf sín týnd inn í skáp eða ofan í skúffu upp á smá von í hjarta um að fá að ferðast óhindrað innanlands í sumar.

Persónulegar sóttvarnir

Árum saman var hlegið að mér fyrir að vera alltaf að þvo mér um hendurnar og vera með sprittbrúsa við skrifborðið í vinnunni. En ekki lengur. Ekki eftir Covid-19.

Ef nær öll okkar stunduðum persónulegar sóttvarnir af alvöru, þá væri engin þörf á þessum sóttvarnaraðgerðum. Þá gætum við enn farið í leikhús, líkamsrækt og á bari. Hitt annað fólk. Maður er manns gaman.

En nei, enn finnst mörgum það móðgun að þurfa að þvo sér um hendur eftir salernisferðir. Rökin að viðkomandi hafi ekki pissað á hendurnar á sér. Snýst ekki um það, heldur almennt hreinlæti og dráp á sýklum. Plús að það er ekkert sérstaklega geðslegt að taka í spaðann á einhverjum sem er nýbúinn að gæla við kynfærin á sér og ekki þvo sér á eftir.

Og þessi sífellda árátta fólks að hósta og ræskja sig í hvert sinn sem það mætir annarri manneskju á förnum vegi. Eða skokkararnir og hjólreiðafólkið sem hrækir í áttina að manni um leið og við mætumst. Það er faraldur í gangi. Hvað er að ykkur!

Ótal myndir af vinkonum og vinum saman í hittingum á facebook. Vangi við vanga og tveggja metra reglunni fleygt út í hafsauga. Trúið þið því virkilega að þið getið ekki smitað hvort annað því þið eruð vinir! Þúsundir dag hvern að berja eitthvert aumt gos augum og fá sjálfur fyrir instagram, snapchat og tiktok. Hirða ekkert um sóttvarnir.

Persónulegar sóttvarnir og hreinlæti er það eina sem virkar.