Ritskoðun má aldrei leiða í lög

Eða svo segir þessi ónýta stjórnarskrá okkar ásamt því að nefna nokkrar undanþágur sem ég nenni ekki að telja upp.

Samt stekkur fram flóttaþingkona úr Vinstri-Grænum sem er búin að koma sér fyrir í öðru sæti á lista Samfylkingarinnar í Reykjavík-suður og krefst þess að fjölmiðlar minnist ekki á andlát Larry Flynt útgefanda Hustler. Manns sem tók kúlu og lamaðist fyrir neðan mitti í baráttu sinni fyrir málfrelsinu.

Flóttaþingkona sem réttilega sagði skilið við flokkinn sinn þegar hann ruglaði saman reitum við Sjálfstæðisflokkinn í ríkisstjórnarsamstarfi. Hrós fyrir það!

En ætlar sér svo að verða málsvari ritskoðunar og skoðanakúgunar á Alþingi Íslendinga. Heimtar að það verði refsivert að tala niður Helförina.

Versta sem við getum gert er að segja fólki hvað það má segja og hvað ekki. Hvernig dirfumst við?

Okurbitinn

Nú hef ég fram að þessu staðið við heit mitt um að hætta að kaupa vondar, brenndar og áleggssnauðar pizzur frá Spaðanum, Dominos og Pizzunni. Ömurlegt að þurfa sjá eftir hverri pöntun og henda helmingnum í ruslið í stað þess að taka hann með í nesti daginn eftir.

Mæli með Castello í Lágmúla. Fínar flatbökur sem þú sérð ekki eftir að sporðrenna. Góður salur upp á efri hæð með útsýni út á hafið og lyftu fyrir þá sem meika ekki stigann. Áfylling á gosi innifalin ásamt góðri og vingjarnlegri þjónustu. Nettó og Lyfja við hliðina á. Öll innkaup í sömu götu.

Hef ákveðið að bæta við öðru áramótaheiti. Að hætta að kaupa samlokur, langlokur og vefjur frá Sóma og Dagný í hádegismat. Þetta drasl hefur hækkað þvílíkt í verði! Ekkert eðlilegt við það að greiða vel yfir áttahundruð krónur fyrir vefju sem kostaði rétt undir sjöhundruð fyrir áramót og þótti fokdýrt þá.

Hef nú þegar hafið að mótmæla með fótunum. Mæti núna með smurt að heiman og þarf á móti ekki að hlunkast í Bónus eða Krónuna eftir okurbita frá Sóma eða Dagný. Tímasparnaður og peningasparnaður í sama pakka. Fáranlegt að styrkja svona okrara áfram nema að undirgreidda og erlenda starfsfólkið þeirra fái að njóta þess í hærri launum. Sem ég efa að gerist á mínu æviskeiði.

Hamraborgin

Verður svo gaman fyrir núverandi íbúa Hamraborgar, Álfhólsvegar og Digranesvegar að hlusta á niðurrif gömlu bæjarskrifstofunnar/félagsheimilisins, auk tveggja annarra bygginga í eigu bæjarins, sem eru varla mikið eldri en þrjátíu ára. Og allra gömlu, litlu húsanna þar á bak við.

Loks fá íbúarnir að hlýða á sanna sinfóníu þegar gröfurnar fara að höggva fyrir bílakjallara undir allt draslið sem á að koma í staðinn. Skeleton Hill comes alive again.

Og engin verður Borgarlínan, því ekkert pláss er fyrir hana á Borgarholtsbrautinni í gegnum Kársnesið. Og engin brú kemur yfir Fossvoginn á næstunni vegna útboðsklúðurs. Og jafnvel svo verði þá fjölgar farþegum strætó ekki með því að harmonikkuvagn aki aðeins oftar í gegnum eitthvert níðþröngt úthverfanes Kópavogs til og frá í Hamraborg. Síst af öllu þegar hringleiðir Kársness nr. 35 og 36 verða lagðar niður í ferlinu.

Enginn af þessum himnakastölum mun rísa! Nema í þokukenndum þverhausunum sem leggja þá til í von um ofurgróða og frekari vegtyllur. Misspilltir stjórnmálamenn og konur eiga ekki að koma nálægt skipulagsmálum. Íbúar, óháðir arkitektar og skipulagsfræðingar eiga að sjá um ómakið. Og alls ekki verktakar!