Strögglað með veirunni

Frekar af nauðsyn en hlýðni við samgöngusamning minn við vinnustaðinn, hef ég ferðast með strætó síðustu vikurnar. Pramminn hans pabba er að hruni kominn og á leiðinni upp í Vöku. Bíllaus lífstíll er víst framundan á ný.

Hefur gengið ágætlega og ég ekki séð þörf á grímunotkun fram að því þegar eldri kona hóstaði yfir hnakkann á mér í dag. Þorði ekki að hasta á hana því meðlimur Kveiks sat fyrir framan mig og ég óttaðist að hún myndi gera mig að efni í þættinum.

Mér finnst fólk vera að gleyma sér æ oftar og leyfa sér að ryðjast inn fyrir metrana tvo. Ekki virða persónulegt rými okkar hinna sem viljum alls ekki eða megum alls ekki fá þessa helvítis pest vegna heilsufarsástæðna.

Hryllingsárið

Ég veit ekki hvað mér á að finnast um það sem er liðið af þessu ári. Annus horribilis. Ömurleg vetrarveður með víðtækum skemmdum. Loks þegar fór að birta og vorið að nálgast, tók einhver andskotans vírus samfélagið yfir.

Má víst þakka fyrir skjót viðbrögð stjórnvalda. Að þau hafi ákveðið að fara að ráðum þríeykisins. Er þó löngu orðinn hundleiður á þessum fjöldatakmörkunum og samkomubönnum. Þúsund kjaftar fá víst að safnast saman í næsta mánuði og opnunartími öldurhúsa lengdur eitthvað. Jeeiii!

Er bara svo hræddur um að við munum ekki fá aftur ýmis áunnin réttindi að faraldrinum loknum og að þrengt verði að á öðrum vígstöðvum. Allt í nafni sóttvarna. Verðum að hafa augun opin. Standa í fæturna gagnvart stjórnvöldum.

„Er ekki röð?“

Fyrir viku síðan skrölti ég niður á Dalveg með slatta af dósum í Endurvinnsluna. Frekar rólegt að gera og ég bara nokkuð sáttur með mína þrjá svörtu ruslapoka.

Fór í röðina fyrir utan og valdi mér svo eina af þremur röðum þegar inn var komið. Komst að þeirri lengst til hægri. Ein kona á undan með fáar dósir. Sturtaði úr fyrsta pokanum og ýtti á græna hnappinn.

„Er ekki röð?“ öskraði einhver hipster á Nizzan Zero á mig. Gaur sem hafði verið á undan mér fyrir utan, en valið hægari röð þegar inn var komið. Ég ákvað að gefa mig ekki og reyndi að útskýra fyrir honum reglurnar án árangurs. Að röðin skiptist í þrennt fyrir framan færiböndin þrjú. Hélt um tíma að ég þyrfti að handrota hann fyrir djöfulskapinn.

Starfsmaður gekk á milli okkar og studdi minn málstað. Að röðin skiptist í þrennt þegar inn væri komið. Að þú gætir ekki bara hoppað á milli eftir því hvar losnaði fyrst. Yrðir að halda þig við þína röð. Fékk illt augnaráð.

Af hverju er fólk svona frekt?