Pizzaland

Fullur eftirvæntingar, tilhlökkunar og vonar um fyrirtaks brauðpramma með fullt af áleggi fyrir minna verð, brunaði ég á Dalveginn eftir vinnu fyrir tíu dögum til móts við Spaðann.

En nei. Þarna var ekkert nýtt á ferðinni nema eitthvað lægri verðlagning sem vel má mæta og bæta með tilboðum keppinautanna; sérstaklega fyrir fjölskyldufólk.

Bara lélegur dagur á Dominos. Sama sveitta uppskriftin með upphleyptu deigi við jaðarinn. Síst meira af áleggi og aukaosturinn alls ekki til staðar. Brauðstangirnar loftkenndar, bragðlausar og þurrar.

Hef sjaldan orðið fyrir eins miklum vonbrigðum með brauðpramma. Enda sendi ég grátpóst á Spaðann. Var boðið inneign sem sárabætur í kjölfarið en ætla ekki að þiggja þær. Geng ekki í sömu gildruna tvisvar.

Verður víst að hafa í huga að gaurinn á bak við þetta er einn af þeim sem stofnaði Dominos á Íslandi á sínum tíma. Gerði reyndar sæmilega hluti í IKEA en hefur greinilega slegið algjört vindhögg núna. Tapað galdrinum.

Að vísu er maturinn í mötuneyti Garðabæjar hálfgert drasl, en á fínu verði. Kannski er það bara viðskiptahugmyndin og ég hef ekki yfir neinu að kvarta. Er að kaupa rusl á lægra verði en annars staðar.

Eyðir samt ekki þeirri staðreynd að þegar erlendar keðjur eða eitthvað svipað lendir á okkar ströndum, þá útvatnast það og er gert fokdýrt. Og við eigum bara að gleypa glæpinn hráan án eldunar. Þiggja það í ósmurt rassgatið.

Enn virðist vera við lýði viðskiptasiðferði danskra einokunarkaupmanna fyrri alda um að selja okkur maðkað mjöl. Enginn metnaður, bara græðgi. Rétt eins og einokunin sé enn við lýði. Verðum að læra að fara eitthvert annað þegar sparkað er í punginn á okkur.

Viku síðar fór ég á Pizzuna og fékk mér mánudagstilboð. Þvílíkur munur. Aukaosturinn var heldur betur til staðar ásamt ást og hlýju. Kannski vegna þess að pramminn var ekki gerður af ofdekruðum, íslenskum menntaskólaskríl, heldur fullorðnum einstaklingum frá fjarlægum löndum í leit að betra lífi?

Plásturinn rifinn af sárinu

Rýmisgreind Íslendinga er misjöfn. Og við kunnum illa að fara í raðir fyrir utan verslanir. Ég nota sjónmælingarminnið frá því ég starfaði við að saga niður og bora í ryðfrítt stál.

Fimm gangstéttarhellur eru tveir metrar og svo framvegis. Samt er oftar en ekki einhver andandi ofan í hálsmálið á mér. Blaðrandi í símann og frussandi aftan á hálsinn á mér.

Fólk er fífl og við Íslendingar erum extra mikil fífl. Víðir, Þórólfur og Alma boða tilslakanir upp úr næstu mánaðarmótum og skríllinn skundar strax af stað í kjölfarið eins og fíll í postulínsbúð. Allur okkar góði árangur mun gufa upp í sumar með þessu áframhaldi.

Þó er eftirtektarvert að bæði Víðir og Þórólfur eru tregir við að slá af Þjóðhátíð í Eyjum, enda ólust báðir þar upp. Önnur lög og aðrar reglur virðast gilda um Vestmannaeyjar. Sérstaklega yfir verslunarmannahelgina þegar ÍBV þarf að hala inn 70% árstekna sinna.

1.999 manns í átta aðskildum hólfum er ekkert að fara að gerast í Herjólfsdal. Tveggja metra reglan gengur ekki upp í slíkum þrengslum. Allir gestir Þjóðhátíðar þurfa þá að fara í sóttkví eftir helgina.

En svona er þetta bara. Sumarið er dautt. Við munum bara hanga heima hjá okkur fyrir utan stöku göngutúra og verslunarferðir með tveggja metra millibili, hönskum og spritti. Finnst reyndar skjóta svolítið skökku við að ætla að leyfa hárgreiðslu og tannlækningar með allri sinni nánd. Íslenskar sóttvarnir eru misvísandi. Ætla til dæmis að leyfa golf en ekki knattspyrnu. Skólahald grunnskólanema en ekkert sund eða líkamsrækt.

Sjálfur spái ég því að við verðum búin að gefa allar þessar takmarkanir upp á bátinn um leið og örfáir greinast dag eftir dag. Þá mun þjóðin segja í kór „fuck it bara“ og sýna yfirvöldum fingurinn. Gefa skít í mögulegar sektir.

Við verðum einhvern tímann að vera nógu huguð til að taka stökkið. Láta af þessari ofurvarkárni. Rífa plásturinn af sárinu. Getum ekki endalaust sett hausinn undir okkur og vonað það besta. Lífið verður að halda áfram.

Covid-19

Kannski bara ágætt að þurfa ekki að mæta í vinnu í fyrramálið. Letinginn ég er skráður í frí þessa þrjá vinnudaga fram að páskum. Sjálfskipuð sóttkví, afslöppun og nýting á orlofsdögum.

Er bara virkilega þakklátur að vera ekki kominn með þessa veiru í kroppinn. Þrátt fyrir margar ferðir með strætó fyrstu tvær vikurnar í samkomubanninu og ferðir í matvörubúðir.

Hef passað mig vel og rifjað upp tæknina við að snerta ekki andlitið á mér. Ímynda mér bara að hendurnar séu óhreinar af stálryki eftir vinnu í framleiðslu Marel h/f. Og aukið handþvott og sprittun. Fólk er hætt að hlægja að mér fyrir þessa snyrtimennsku.

Og þegar ég kem inn einhvers staðar þá þvæ ég hendurnar með sápu og vatni…tvisvar. Passa mig á að bera aldrei veiruna heim til mín eða heim til annarra. Bara vonandi að fólk sem þrífur sig ekki eftir salernisferðir fari að bæta ráð sitt. Að það komi út úr þessu öllu.

Viðurkenni fúslega að í fyrstu leist mér ekkert á samkomubannið. Fannst það óþarfa inngrip í líf okkar. Síðan hef ég kveikt á perunni og gengið í takt. Megum ekki láta veiruna leggja heilbrigðiskerfið. Annars deyja fleiri.