Ljóti kallinn

Skautadrottning að norðan varð fyrir kynferðislegu áreiti af hendi þjálfara síns. Málið þaggað niður og hún þolendaskömmuð. Næstum orðin átján ára og átti augljóslega bara að leggjast undir gaurinn samkvæmt skautafélaginu til að halda friðinn.

Þjálfarar, kennarar, og stjórnendur eiga ekkert með að reyna við fólk undir sér. Til þess er valdajafnvægið of mikið. Punktur!

Freki kallinn

Hitti þennan gaur hvern morgun á leið til vinnu í umferðinni. Er oftast á enskum jeppa og hirðir lítið um stefnuljós. Svínar bara fyrir þig án umhugsunar.

Hitti hann í apóteki um daginn þar sem miðakerfi stjórnar öllu en ekki óskipulagðar biðraðir. Hann var rétt búinn að panta lyfið þegar hann hóf að æpa og öskra aö hann væri búinn að bíða í óratíma og sætti sig ekki við þetta.

Hangir aftan í mér yfir hraðahindranir. Finn fyrir honum djúpt í iðrum mér þó gatan sé annars auð og bjóði upp á góða fjarlægð milli bifreiða.

Hann arðrænir land og þjóð í gegnum kvótakerfið og afrísk ríki þegar Ísland dugir ekki til.

Hann er í Sjálfgræðgisflokknum.

Frelsinu veifað en ekki veitt

Langt er síðan ég varð afhuga flokkspólítík. Að tilheyra einhverju liði og fylgja flokkslínunni. Elti frekar stök málefni óháð flokkum.

Áslaug Arna dómsmálaráðherra er þvílíkt að slá í gegn hjá mér þessa dagana. Vill slíta tengslin við kirkjuna, leggja niður mannanafnanefnd og leyfa áfengissölu í gegnum netið í samræmi við Evrópureglur.

En auðvitað verður ekkert af þessu. Mál verða sett seint fram til að deyja og íhaldssamt Alþingi mun aldrei samþykkja neitt í frelsisátt fyrir þegnana. Auk þess eru svona mál bara sett fram til að slá ryki í augu kjósenda.

Sjálfgræðgisflokkurinn er ekkert hrifinn af frelsi nema sér til handa. Frelsi til að arðræna okkur hin.