Merklegt hve lögreglan er stolt af því að tilkynna að nokkru af áfengi hafi verið hellt niður fyrir framan ólögráða unglinga. Að ungt og ómótað fólk hafi verið svipt eigum sínum og þær eyðilagðar vegna þess að þau hafa ekki aldur til að kaupa sér dýrasta áfengi jarðkringlunnar í Ríkinu. Mjög uppbyggjandi eða hitt þó heldur.
Á meðan flæðir allt í læknadópi og innfluttum eiturlyfjum sem má fá sent upp að dyrum á skemmri tíma en flatböku. Leikin er óþolandi auglýsing í sjónvarpi um að við þurfum að vakna. Gaur með bláar pillur vaknar ekki. Enginn veit um styrkleikann og hver pilla er leikur að dauðanum.
Væri ekki nær að hætta þessari afneitun. Slá af síhækkandi áfengisgjald og íþyngjandi skatta. Selja bjórinn, léttvínið og búsið með eðlilegum sköttum. Þarf ekkert endilega að vera í matvörubúðum.
Nei, það má ekki. Ríkishítin má ekki við að missa 30 milljarða skattheimtu. Upphæp á pari við fjármagnstekjuskattinn. Væri ekki nær að fjármagnið greiddi 50 milljarða og brennivínið 10!
Og andskotist þið svo til að samræma áfengiskaupaaldur við sjálfræðis- og fjárræðisaldurinn átján ár! Mátt kaupa þér manndrápstæki upp á tvö tonn á fjórum hjólum en mátt ekki opna bjórflösku yfir leiknum í ensku deildinni.