Kjaftæðið

Eftir því sem ég verð eldri hef ég æ minni þolinmæði fyrir kjaftæði stjórnmálaelítunnar sem álítur okkur öll hin vera auðtrúa hálfvita.

Einhver samningur ríkis og sveitarfélaga um bættar samgöngur og borgarlínu er tómt þvaður. Þéttu ryki er slegið í augu kjósenda svo við höldum að verið sé að vinna í málinu. Að eitthvað sé verið að gera.

Borgarlína í gegnum Kársnesið í Kópavogi upp að Hamraborg er tómt rugl. Varla er hægt að aka Borgarholtsbraut á bifreið nú þegar. Hvað þá að bæta þar við harmonikkustrætó með tveimur liðamótum.

Vaknaðu!

Merklegt hve lögreglan er stolt af því að tilkynna að nokkru af áfengi hafi verið hellt niður fyrir framan ólögráða unglinga. Að ungt og ómótað fólk hafi verið svipt eigum sínum og þær eyðilagðar vegna þess að þau hafa ekki aldur til að kaupa sér dýrasta áfengi jarðkringlunnar í Ríkinu. Mjög uppbyggjandi eða hitt þó heldur.

Á meðan flæðir allt í læknadópi og innfluttum eiturlyfjum sem má fá sent upp að dyrum á skemmri tíma en flatböku. Leikin er óþolandi auglýsing í sjónvarpi um að við þurfum að vakna. Gaur með bláar pillur vaknar ekki. Enginn veit um styrkleikann og hver pilla er leikur að dauðanum.

Væri ekki nær að hætta þessari afneitun. Slá af síhækkandi áfengisgjald og íþyngjandi skatta. Selja bjórinn, léttvínið og búsið með eðlilegum sköttum. Þarf ekkert endilega að vera í matvörubúðum.

Nei, það má ekki. Ríkishítin má ekki við að missa 30 milljarða skattheimtu. Upphæp á pari við fjármagnstekjuskattinn. Væri ekki nær að fjármagnið greiddi 50 milljarða og brennivínið 10!

Og andskotist þið svo til að samræma áfengiskaupaaldur við sjálfræðis- og fjárræðisaldurinn átján ár! Mátt kaupa þér manndrápstæki upp á tvö tonn á fjórum hjólum en mátt ekki opna bjórflösku yfir leiknum í ensku deildinni.

Banna! BAnnA! BANNA!

Nokkrir hræddir, hvítir karlmenn söfnuðust saman niður á Lækjartorgi með fána og merki. Nýnasistar er víst réttnefni. Voru sennilega ekki með leyfi svo lögreglan fór að skipta sér af. Einn handtekinn fyrir að gefa ekki upp nafn.

Í gær safnaðist svo góða fólkið saman á Lækjartorgi og heimtaði að banna skyldi öfgasamtök hvítra þjóðernissinna. Eins og slíkt breyti einhverju. Alltaf skal gripið til þess ráðs að þagga niður í fólki sem er ekki sammála. Ritskoða og bannfæra.

Þið verðið að fyrirgefa mér, en á Íslandi er bara slatti af fólki sem hræðist að litla eyjan okkar fyllist af flóttafólki. Margir hlustendur og styrkjendur Útvarp Sögu og kjósendur Miðflokksins. En þannig er það nú bara. Af hverju má þeirra skoðun ekki heyrast?

Allir tapa þegar „óvinsælar“ skoðanir mega ekki lengur heyrast eða sjást á prenti og netmiðlum. Samtalið verður að vera til staðar. Rökræðan og rifrildið. Annars verður samfélagið ansi einsleitt og flatt.

En um leið og einhver fer að beita andlegu eða líkamlegu ofbeldi verður vitaskuld að grípa í taumana án tafar og kveða það niður í fæðingu.