Of seint

Túristunum er farið að finnast of dýrt að koma hingað og þá ákveður verkalýðshreyfingin að fara í verkföll gegn hótelum landsins. Sorry, en tímasetningin er bara eitthvað svo taktlaus.

Auðvitað eru lægstu laun allt, allt of lág og duga engan veginn fyrir framfærslu og þaki yfir höfuðið. Skattleysismörk og persónuafsláttur út úr korti og í engu samræmi við sem það sem þau ættu að vera.

Sannleikurinn er sá að flestar skattbreytingar síðustu ára hafa verið hinum tekjuhærri í hag. Sem við aumingjarnir höfum svo þurft að greiða fyrir með lakari kjörum.

En eins og ég skrifa, þá munu verkföll núna aðeins koma hinum lægst launuðu verst með verkbönnum atvinnurekenda og uppsögnum í kjölfarið. Verkföll eru svo gamaldags og virka ekkert lengur.

Betri árangur næst með samtali andstæðra fylkinga. En þá þarf líka að sitja sem fastast og ræða málin út í þaula. Ekki fara í fýlu við fyrstu tillögu mótaðilans.

Hatrið mun sigra

Aðdáendur Heru Bjarkar og Friðriks Ómars eipuðu á facebook og twitter og létu hatur sitt dynja á Hatari í kjölfar sigurs þeirra. Gerum aldrei neitt nýtt og höldum bara áfram að senda sama sveitta liðið með sama þreytta vælið.

Hatari vann á eftir sem leið á forkeppnina. Atriðið er algjör snilld. Lagið skánar við frekari hlustun. Tuttugu og tvö ár síðan við sendum Pál Óskar með rasskinnarnar berar og breyttum keppninni.

Hann vill reyndar sniðganga keppnina í ár en það myndi enginn taka eftir því ef litla Ísland birtist ekki í Tel Aviv. Allir munu hinsvegar taka eftir Hatara. Sannið þið til!

Ekkert spes ár að baki

Síðastliðið ár var ekkert spes. Sífelldar þvagfærasýkingar og yfirvofandi húsnæðisleysi með haustinu. Fann þó eftir mikla leit nýjan samastað á viðráðanlegu verði og fór í aðgerð.

Hef verið þreyttur síðan þá. Og missti á tímabili það litla sjálfstraust sem ég þó hafði. Varla óeðlilegt þegar fermingarfélaginn er tímabundið úr leik fram að næstu aðgerð í haust.

Huggun harmi gegn er að ég sit ekki lengur í kortér á könnunni eða lengur að tæma þvagblöðruna. Fátt er svo með öllu illt að ei boði gott.