Atkvæði til sölu!

Í þá gömlu góðu daga var hægt að selja atkvæði sitt í sveitarstjórnarkosningum gegn smá greiða.  Skyldi það enn eiga við?  Maður skyldi halda það þegar framboðin eru fleiri en nokkru sinni fyrr og tryggð fólks við „sinn“ flokk er ekki eins sterk.  Fjórflokkurinn má ekkert missa úr sínum aski til að halda völdum.

Spurning um að bjóða atkvæði sitt til sölu?

Beint lýðræði

Fólk í stjórnmálum lærir fljótt að sum mál má aldrei leysa til fulls því þá nennir enginn lengur að kjósa þau til góðra verka.

Ellilífeyris – og örorkubætur mega aldrei ná vísitöluhækkun launa.  Tollfrelsi má aldrei ganga í gegn.  Vín í búðir má aldrei leyfa.  Vextir mega aldrei lækka um of.  Húsnæði verður að vera dýrt og nær ófáanlegt.

Fólk má ekki hafa það of gott.  Annars nennir enginn að kjósa stjórnmálafólk út á loforðin þeirra.

Í tæknivæddu og upplýstu samfélagi á fulltrúalýðræði spilltra stjórnmálakatta ekki lengur rétt á sér.  Við getum rétt eins kosið á milli málefna með morgunkaffinu í gegnum spjaldtölvuna.

Alveg eins við eins og 63 þingmenn og konur sem kjósa hvort sem er eftir flokkslínum, sannfæringu eða tilfinningu.

Næturvakt Rásar 2

Hef verið að reyna að rifja upp hvenær ég hóf að hafa opið fyrir næturvaktina um helgar.  Sennilega fyrir fimmtán árum síðan þegar reglulegt djamm um helgar niður í miðbæ datt niður vegna þess að vinir mínir og drykkjufélagar hófu sambúð og byrjuðu að fjölga sér.

Fékk smá saman leið á að vafra einn niður í bæ eins og illa gerður hlutur.  Fór frekar að hanga heima á netinu með einn kaldann á kantinum.  Hlusta á næturvakt rásar tvö með Guðna Má Henningssyni.  Ekki er öllum gefið að tala við einmana sálir næturinnar sem margar hverjar hafa áfengi um hönd.  Guðni er þar fremstur meðal jafningja.

En nú er hann að hætta og aðeins ein vakt eftir um næstu helgi.  Flytur af landi brott.  Fer á eftirlaun.  Hvað gerum við vesælar sálir næturinnar?  Hver á að vagga okkur í svefn?

Einhver mun vonandi taka við.  Ragnheiður Eiríksdóttir (Heiða Hellvar í Unun) hefur stundum leyst Guðna af með góðum árangri.  Nærtækast væri að leita til hennar. Hún er gædd sömu gáfu og Guðni.

Vonandi leggst næturvaktin ekki af eins og var planið fyrir nokkrum árum síðan en hætt var við vegna mótmæla hlustenda.  Við vesalingarnir þurfum á einhverjum að halda inn í nóttina um helgar.  Eyra til að  hlýða á óskalög okkar.