Alkastjórnin

Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur er andvana fædd.  Rétt eins og maki alkahólista ætlar Kata að drekka með honum flöskuna og vona að hann drullist í bælið í stað þess að bruna á barinn þegar henni lýkur.

Alkinn hefur hins vegar séð fyrir öllu og lumar á annari flösku sem Kata veit ekki af.

Engu skiptir þó bílstjóri alkans sé til staðar.  Þetta stjórnarsamstarf er ekki á vetur setjandi.  Alkinn ræður ætíð för.  Eitrar og eyðileggur út frá sér.

Daðrið er dautt

Hollywood hefur hrundið af stað byltingu uppljóstrana um dónaskap.  Ísland er ekki undanskilið.  Konur hafa brostið fram og sagt frá áreitni og þaðan af verra á sínum vinnustöðum.  Misgrófar frásagnir en sumar jaðra þó við að falla í daðurflokkinn.  Klaufalegar áreynslur karla sem eru túlkaðar sem áreitni.

Káf, grófar athugasemdir og bank á hótelhurðir um nætur eru hinsvegar annað mál.  Hvað er eiginlega að þessum mönnum.  Fengu þeir ekki næga væntuþykju í æsku?

Tel mig strax hafa spottað einn núverandi þingmann út frá frásögnum kvenna í stjórmálum.  Ætla ekki að nefna hann á nafn en segi bara að áfengismeðferðin virðist bara hafa gert hann graðari.

Verst við þessa byltingu er að nú þora flinkir daðurkettir ekki lengur að mjálma í átt að konum.  Fátt er fallegra en að fylgjast með flottu daðri.  Þessum tignarlega dansi milli tveggja einstaklinga sem endar ekkert endilega upp í rúmi.

Dónakallinn

Kevin Spacey var einn af uppáhalds leikurunum mínum.  Charlie Sheen var skemmtilegur en skrítinn upp á síðkastið.  Steven Seagal bardagahetjan mín þrátt fyrir fasískar stjórnmálaskoðanir.  Harvey Weinstein og Ed Westwick fannst mér reyndar alltaf eitthvað viðbjóðslegir.

Allt eru þetta dónakallar í kjölfar bylgju opinberanna í henni í Hollywood.  Uppljóstrana sem eru svo margar að ekki er lengur hægt að draga þær í efa.  Konur og karlar stíga fram í hópum og lýsa ofbeldinu gegn sér.

Loksins fá þolendur að opna sig um áreitni og þaðan af verra.  Og loksins er hlustað á þau og framburður þeirra tekinn trúanlegur.  Loksins fá þau kraftmikla rödd og vettvang til að tjá sig.

Löngu er orðið tímabært að uppræta þetta samfélagsmein.  Að karlar með völd níðist á þeim sem eru fyrir neðan þá í goggunarröðinni.  Bara af því að þeir telja sig eiga rétt á því.

Til að mynda hefur mér alltaf fundist viðbjóðslegt við verðlaunaathafnir þegar karlar sleikja vanga á stúlkum en taka í hönd á strákum.  Hvað er það!?  Eflaust spurning um völd.  Að setja stúlkur neðar.

Og af hverju er talað um stúlkubörn og stráka.  Fáranlegt.  Sá þetta síðast viðhaft um nýfætt barn Ágústu Evu og Arons.  Hvers á hún að gjalda?

Án efa hef ég sjálfur gerst sekur um slæma hegðun gagnvart konum einhvern tíma um ævina.  Gripið í rass, þrýst mér að eða talað niður til kvenna.  Ég er þess reyndar fullviss þó það hafi varla gerst nýlega vegna langrar fjarveru minnar frá kjötmarkaði miðbæjarins og vonandi aukins þroska.