Kevin Spacey var einn af uppáhalds leikurunum mínum. Charlie Sheen var skemmtilegur en skrítinn upp á síðkastið. Steven Seagal bardagahetjan mín þrátt fyrir fasískar stjórnmálaskoðanir. Harvey Weinstein og Ed Westwick fannst mér reyndar alltaf eitthvað viðbjóðslegir.
Allt eru þetta dónakallar í kjölfar bylgju opinberanna í henni í Hollywood. Uppljóstrana sem eru svo margar að ekki er lengur hægt að draga þær í efa. Konur og karlar stíga fram í hópum og lýsa ofbeldinu gegn sér.
Loksins fá þolendur að opna sig um áreitni og þaðan af verra. Og loksins er hlustað á þau og framburður þeirra tekinn trúanlegur. Loksins fá þau kraftmikla rödd og vettvang til að tjá sig.
Löngu er orðið tímabært að uppræta þetta samfélagsmein. Að karlar með völd níðist á þeim sem eru fyrir neðan þá í goggunarröðinni. Bara af því að þeir telja sig eiga rétt á því.
Til að mynda hefur mér alltaf fundist viðbjóðslegt við verðlaunaathafnir þegar karlar sleikja vanga á stúlkum en taka í hönd á strákum. Hvað er það!? Eflaust spurning um völd. Að setja stúlkur neðar.
Og af hverju er talað um stúlkubörn og stráka. Fáranlegt. Sá þetta síðast viðhaft um nýfætt barn Ágústu Evu og Arons. Hvers á hún að gjalda?
Án efa hef ég sjálfur gerst sekur um slæma hegðun gagnvart konum einhvern tíma um ævina. Gripið í rass, þrýst mér að eða talað niður til kvenna. Ég er þess reyndar fullviss þó það hafi varla gerst nýlega vegna langrar fjarveru minnar frá kjötmarkaði miðbæjarins og vonandi aukins þroska.