Loksins!

Loksins virðast þeir tímar upp runnir að við ætlum ekki að líða kynferðisofbeldi miðaldra karla sem telja það til sjálfsagðra réttinda sinna að fá aðgang að stjúpdætrum sínum og öðrum ungum konum.  Að svona sé þetta bara og hafi alltaf verið.  Ekkert óeðlilegt við það.  Og algjört rugl að hljóta dóm fyrir slíka misnotkun og uppreist æra því eðlilegt framhald.

Samtrygging siðblindra flokkshesta hefur nú fellt heila ríkisstjórn.  Fólk umber svona sóðahegðun ekki lengur.  Látið börn og ungar konar í friði, ógeðin ykkar! Látið okkur hin í friði og gerið það eina rétta í stöðunni.  Látið vana ykkur eða hverfið úr samfélagi kvenna og manna.  Að girnast og leita á börn og ungt fólk er ekki eðlileg hegðun.

Og þið hinir valinkunnu sem hafið kvittað upp á beiðnir um uppreist æru æskuvina, flokksfélaga og félaga ykkar:  fokkið ykkur!  Marklaust að segjast sjá eftir öllu saman, ekki hafa lesið bréfið eða vera sjálfir feður.  Óþarfi að vera foreldri til að vita að svona gerir maður ekki.  Morðingjar og nauðgarar hafa enga æru.

Fréttir klukkan fjögur

Eins og margir aðrir miðaldra karlfauskar vakna ég stundum á nóttunni og neyðist til að skreppa á salernið.  Það gerðist síðustu nótt rétt fyrir fjögur.  Líkt og oft áður nennti ég ekki alveg strax fram úr og hélt í mér smástund meðan ég tékkaði á útvarpinu á náttborðinu.

Þulurinn kynnti fréttir klukkan fjögur.  Sem gerist aldrei nema eitthvað mjög sérstakt er í gangi eins og eldgos eða stríð.  Annars eru bara fréttatímar klukkan tvö og fimm yfir nóttina á Rás 1 og 2. – Já, ég stilli stundum á gömlu gufuna. Greinilegt merki þess að aldurinn er að færast yfir.

„Ríkisstjórnin er fallin!“  Ég hristi hausinn og dró niður í viðtækinu.  Er mig að dreyma. Bubbi tók að hljóma inn í höfði mér: „þessi fallegi dagur“.  Vorum við virkilega að losna við enn eina stjórn bófaflokksins.  Hægri sinnuðustu stjórn lýðveldisins sem ætlaði sér svo sannarlega ekkert að gera fyrir aldrað, veikt eða ungt fólk heldur bara einkavinavæða allt draslið fyrir Sinnum, Gamma og Heimavelli.  Allt félög í eigu innvígðra.

Lífið er ljúft!

Hreyfiseðillinn

Sófakartaflan ég átti orðið í erfiðleikum með að staulast úr strætó og heim.  Þurfti að hvíla mig á 13 mínútu göngu.  Eðlilega fékk ég hreyfiseðil í hausinn.   Þótt fyrr hefði verið.  Ég var að drepast.

Nú hef ég verið að skakklappast kröftulega í 30 mínútur eða lengur þrisvar til fjórum sinnum í viku og finn strax stóran mun og finn að ég á nóg inni. Klukkutíma ganga ætti að vera lágmark hjá mér dag hvern.

Er nú svo komið að ef ég læt of lengi líða milli göngutúra, þá fer líkaminn að kvarta. Hvar endar þessi vitleysa eiginlega?  Hjólreiðar í spandexgalla. Laugavegurinn eftir nokkur ár með Tums bróður?

Fyrstu vikuna eftir ávísun hreyfiseðilsins gerði ég ekki neitt og sat bara á sófanum heima í algjörri afneitun.  Svo fór að rofa til í hausnum á mér.  Verð að líta á þetta sem tækifæri í staðinn fyrir kvöð.  Hætta þessu rugli.  Opna augun.  Sjá að kannski er þetta mitt síðasta tækifæri til að snúa dæminu við.  Það verður bara erfiðara eftir því sem að árin færast yfir.

Hef verið að hlunkast um síðastliðnar sex vikur og finn stóran mun á mér.  Sófinn er að missa sitt aðdráttarafl.  Er í sumarleyfi út júlí og nenni varla lengur að sofa út fram að hádegi eins og í fyrri fríum.  Verð að fara að gera eitthvað um leið og ég vakna.

Hreyfiseðillinn er gott spark í rassinn!  Snýst mikið um eigin samvisku og metnað. Að stíga upp úr sófanum.  Koma sér út.  Hætta að ljúga að sjálfum sér.  Fagna því að geta enn stigið í fæturna og komið sér þannig á milli staða.

Vissulega var mjög erfitt til að byrja með og hausinn minn fullur af efasemdum um árangurinn.  En einhvers staðar varð ég að byrja.  Svo hefur jákvæðnin aukist eftir því sem auðveldara hefur orðið að hreyfa sig og vegalengdirnar hafa lengst.

Aldrei þessu vant hlakka ég til að fara út og hreyfa mig.   Hvað er það!