Uppreist æra barnaníðings

Verð að viðurkenna að ég varð fyrir vonbrigðum með minn gamla læriföður, forseta Íslands, að neita EKKI að skrifa undir uppreist æru margdæmds barnaníðings og nauðgara.  Hann hefði átt að láta á það reyna rétt eins og Ólafur Ragnar þegar hann neitaði að skrifa undir fjölmiðlalögin og vísaði þeim til þjóðarinnar.

Það þýðir ekkert að skýla sér á bak við 11. grein stjórnarskrárinnar að:  „Forseti lýðveldisins er ábyrgðarlaus á stjórnarathöfnum.“

Grow a pair!  Hættu þessum aumingjaskap!  Dugir ekki að segja það sem við öll hugsum að kynferðisbrotamenn eigi að loka inni til eilífðarnóns og henda lyklinum.

Þú ert betri maður en svo, herra forseti!  Hér þarf að senda hávær skilaboð.  Að níðingar séu ekki velkomnir aftur í samfélag manna.  Þeir eigi ekki afturkvæmt í sitt gamla sæti heldur neyðist til að finna sér aðra og síðri framtíð eða hengja snöru um háls sér og gera okkur hinum stóran greiða.

Ömurlegt að horfa og hlusta á Brynjar Níelsson og Jón Steinar Gunnlaugsson verja rétt þessa aumingja til að fá annað tækifæri.  Bara af því að hann var í stjórn Heimdallar á sínum tíma og er með gilt flokksskírteini.

Hvað með rétt fórnarlamba þessa vesalings og aumingja?

Íslenski herinn

Ég kann virkilega illa við þegar lögreglumenn mæta gráir fyrir járnum á fjölskylduhátiðir eins og The Color Run.  Drógu reyndar úr vígbúnaðinum í gær en mættu í staðinn þeim mun fleiri niður á Austurvöll til að sýna vald sitt.

Persónulega lít ég á það sem ögrun og valdníðslu þegar lögreglan flaggar skotvopnum sínum í áttina að mér.  Finn alls ekki til öryggis.

Heima sitja Haraldur Johannessen og Björn Bjarnason með sína æðaberu beinstífa af æsingi yfir að loksins verði herlið myndað á Íslandi.

Ógeðslegt!

Hver er ógnin?  Engin!  Nema kannski bófaflokkar sjálfstæðis og framsóknar.

Samkeppni er góð!

Verðlag hér er svo hátt vegna þess að við erum eyja.  Verðlag hér er svo hátt vegna þess að vörurnar ferðast hingað svo langan veg.  Verðlag hér er svo hátt vegna tolla…eehhh nei.  Þeir hafa fallið niður á öllu nema matvöru.

Verðlag hér er svo hátt vegna þess að í árdaga íslenskrar verslunar lærðum við þá list að okra frá dönsku einokunarkaupmönnunum.  Síðan þá hefur það verið lenska að ofrukka fyrir vörur og þjónustu á Íslandi.  Enda lítil sem engin samkeppni verið utan frá þar til nú að amerískur verslunarrisi opnar vöruhús og eldneytisdælur í Garðabæ.

Opnun Bónus á sínum tíma rauf okurmúr heildsalanna svo þeir neyddust til að semja um skárri kjör fyrir neytendur landsins.  Frægt er þegar þeir fóru grátandi til Davíðs Oddssonar forsætisráðherra í kjölfarið til að kvarta undan Jóhannesi í Bónus og frekjunni í honum að heimta sanngjörn verð fyrir magnkaup.

Byrjunin var góð en svo kom bakslag.  Olíufélögin þrýstu á stjórnvöld til að koma í veg fyrir opnun bensínstöðva Irving Oil.  Samkeppnin á þeim markaði var kæfð í fæðingu. Eflaust hefur hið sama verið reynt þegar CostCo lýsti yfir áhuga á að koma hingað og hefði tekist hefði vinstristjórn verið við völd.  Steingrímur Joð hefði aldrei samþykkt ameríska verslunarkeðju.  Og Framsókn ekki heldur.

En auðvaldið í Garðabæ hafði sigur og fékk CostCo til sín í Kauptún.  Kannski er það helsta afrek Ragnheiðar Elínar fyrrverandi ráðherra.  Svei mér þá!  Hún má þó eiga það. Að minnsta kosti er ég frekar sáttur þó ég hafi ekki einu sinni heimsótt sjoppuna enn þá.

Heilbrigð samkeppni er góð fyrir okkur neytendur.