Óttinn

Nokkrar ungar konur tjá sig um óttann við að ferðast einar eftir að kvölda tekur í Fréttablaðinu.  Sumar af fenginni slæmri reynslu.  Hinar vegna þess að samfélagið ætlast til þess að stelpur passi sig!  Vari sig á öllum ljótu köllunum sem eru á ferli þarna úti.

Eins sorgleg og orð þessara ungu kvenna hljóma, þá er þeirra virkilega þörf réttum tveimur vikum eftir að Birna Brjánsdóttir hvarf úr miðbænum.  Af hverju var ekki óhætt fyrir hana að rölta heim eftir skemmtun niður í miðbæ?  Af hverju fékk hún ekki að vera í friði! Komast heim og hvílast eftir ævintýri næturinnar. Spjalla um þau við vinkonur sínar seinna um daginn.

Og af hverju er fólk að skrifa á netinu að hún hefði þurft að passa sig betur og fara heim með vinum sínum í stað þess að ráfa ein upp Laugaveginn?  Af hverju eru sömu varnarorð ekki sögð í eyru ungra karlmanna?

Svo ruglað að gert er ráð fyrir að konur þurfi að passa sig betur en karlar á leið heim eftir dansleik.  Eins og það sé fyrir fram þeim að kenna að ljótir karlar vilji ráðast á þær.  Að konur verði einfaldlega að búast við áreiti og ofbeldi af hendi karlmanna eftir að skyggja tekur.

Sem skýrir af hverju oftar en ekki gerist það þegar ég mæti ungri konu á förnum vegi, að hún herðir ganginn rétt áður en við mætumst og horfir stíft niður í gangstéttina.  Ég er augljóslega möguleg ógn.  Feitur, miðaldra karlmaður á göngu.  Karlar eins og ég eiga að vera á stórum bílum.  Ekki að kjaga á gangstéttum borgarinnar.  Og alls ekki mæta ungum konum.

Minningarganga Birnu Brjánsdóttur verður seinna í dag niður Laugaveginn og kertum fleytt á tjörninni.  Búist er við margmenni og götum verður lokað.  Á meðan sitja tveir grunaðir í gæsluvarðhaldi og neita sök.  Algjörlega siðblindir og telja sig geta sloppið frá glæp sínum með þögninni.

 

Litla systir okkar allra

Nú er rétt vika síðan síðast sást til Birnu Brjánsdóttur.  Skemmtilegrar stúlku með svartan húmor sem var bara á leið heim eftir gott djamm með bita frá Ali Baba og farsímann í rassvasanum síðastliðinn laugardagsmorgunn þegar hún hvarf.

Myndavélakerfi miðbæjarins er svo lélegt og strjált að ekki er hægt að sjá með vissu hvort Birna steig inn í Kia Rio bifreið Grænlendinganna sem eru núna í gæsluvarðhaldi grunaðir um hvarf hennar og þaðan af verra.  Styðjast verður við símagögn.

Miðað við tímann sem er liðinn og grunsemdir lögreglunnar um mögulega atburðarrás, þá er ólíklegt að Birna finnist á lífi.  Því miður.  Eins virkilega sárt og það er fyrir ættingja hennar og vini.  Fyrir hnípna þjóð sem hefur fylgst með leitinni að Birnu rétt eins og hún væri litla systir okkar allra.

Grímur Grímsson (Elliot Ness, Teddy Roosevelt, Commissioner Gordon) sem stýrir rannsókninni á hvarfi Birnu hefur verið andlit lögreglunnar í málinu og staðið sig virkilega vel.  Hann er vongóður að í dag munu björgunarsveitirnar finna hana og stefnir að því að ljúka málinu.  Birna verður að finnast!

Helst vildi ég að játning og vitneskja um hvar Birnu er að finna yrði barin upp úr sjómönnunum sem sitja grunaðir í gæsluvarðhaldi og neita allri sök.  Hvernig dirfast þeir! En það má víst ekki.  Þeir eiga sinn rétt og hugsa eflaust sem svo að á meðan Birna finnst ekki þá munu þeir sleppa með skrekkinn.  Eða að minnsta kosti fá mun vægari dóm út frá líkum.

Næstu fjögur ár Helvítis

Donald Trump í henni Ameríku.  Bjarni Benediktsson hér á Íslandi.  Huggun harmi gegn að við kusum okkur þó mannlegan forseta á Bessastaði.  Nú er bara að sitja af sér þetta stórslys lýðræðisins og láta sig dreyma um betri daga eftir arðrán og niðurbrot á félagslega kerfinu næstu fjögur árin með einkavinavæðingu heilbrigðis- og menntamála.

Enn eiga nokkrir Engeyingar eftir að fá sína bitlinga. Guð forði þeim frá því að þurfa að vinna fyrir sér.  Guð forði þeim frá því að vera án auðs.

Öryrkjar, eldri borgarar og sjúkir eiga ekki bjarta daga framundan hér á landi með ofurhægriíhaldsstjórn frá Helvíti við stýrið á þjóðarskútunni.  Ekki það að þessir hópar hafi haft það gott undir stjórn vinstriflokkanna.  Þetta blessað fólk virðist því miður ekki eiga neina vini niður á Alþingi.

Ef ég væri ríkur myndi ég fagna væntanlegri ríkisstjórn sjávargreifa og vinnuveitenda. En þar sem ég er það ekki þá er þetta lið er ekki að fara vinna fyrir mig.  Langt í frá.