Maður ársins 2016

Hætti naumlega við að henda útvarpinu mínu í vegg rétt áðan þegar hver apaheilinn á fætur öðrum hringdi inn á Rás 2 og kusu Sigmund Davíð Gunnlaugsson sem mann ársins 2016. Fyrir hvað!?  Að haga sér eins og frekt barn? Fyrir Panamaskjölin?  Fyrir að drulla svo duglega upp á bak sér að sletturnar lentu í smettunum á öllum í kringum hann?  Kannski fyrir að gera okkur að athlægi um allan heim?

Innhringjendur voru allar konur á mínum aldri og eldri.  Vorkenna eflaust litla, freka dekurdrengnum sem var lagður í einelti á landsfundi af þremur rútuhlössum af Kanadabúum af kínverskum ættum.  Vill þorri fólks virkilega fá þennan rugludall aftur sem forsætisráðherra?  Sér það ekki hvað er að gerast í Bandaríkjum Norður – Ameríku.

Er ekki nóg á okkar þjóð lagt að fá mögulega yfir okkur hægristjórn dauðans fyrir áramót. Öryrkjar og aldraðir eiga ekki bjarta framtíð fyrir höndum þegar íhaldið, litla íhaldið og flokkurinn sem veit ekki hvort hann á að vera krataflokkur eða íhald taka við stjórn landsins.

Hver veit nema að Simmi og félagar fái að vera með.  Það á jú að selja fullt af ríkiseignum fyrir skít og kanil til réttra aðila.  Framsókn verður að koma að því samkvæmt helmingaskiptareglunni.

Flókið samband við símtæki

Ég hef aldrei skilið símann.  Ólst að mestu upp án hans í æsku.  Hann birtist allt í einu í kringum fermingu á veggnum heima á Hábrautinni.  Veit ekki af hverju. Vorum búin að vera án hans bróðurpart æsku minnar.  Er reyndar til ein ljósmynd af mér að stelast í símann um það leiti sem ég var að byrja að ganga heima á Tunguvegi í Fossvogi.  Var að sögn símaóður á þeim tíma og hringdi víst óvart til útlanda eitt skiptið.

Hvað um það.  Hefði seint fengið mér farsíma nema í gegnum Domi vinnufélaga í Marel eftir Þjóðhátíð 1999.  Nokia 5110.  Hann gat reddað góðum pakka í gegnum Tal. Gömlu, finnsku símarnir voru fínir.  Bara símtöl og SMS.  Einfalt og gott.  Hægt að missa þá í gólfið og skipta um framhlið að vild.

Svo urðu helvítis farsímarnir snjallir.  Týndu takkaborðinu og fengu snertiskjá. Eins og það væri ekki nóg að vera nettengdur í tölvunum heima og í vinnunni.  Var nú orðið nauðsynlegt að stara á skjá í strætó og fá hnykk á hálsinn?  Troða myndavél og hljóðnema í tólið og heimabankanum líka?

Fyrir tuttugu árum æpti einhver trúarofstækismaður að mér að greiðslukortin væru merki dýrsins (djöfulsins).  Svei mér þá ef hann hafði bara ekki talsvert til síns máls, nema að snjallsíminn er svo sannarlega orðinn verkfæri djöfulsins. Sjúkdómar og áfengi gengu frá Indíánum Ameríku.  Tóbakið frá hvíta manninum. Snjallsíminn mun sjá um restina af okkur!

Ég nota minn snjallsíma aðallega sem vekjaraklukku.  Gleymi honum eins oft og ég get og hata hann þess á milli.  Enda hringir enginn lengur í mig og ég ekki í neinn. Við erum öll á facebook og mér er andskotans sama hvað fólk er að gera frá mínútu til mínútu sérhvern dag.  Er ekki einu sinni með Snapchat eða Tinder í símahelvítinu.

Er núna alvarlega að hugsa um að skipta þessum hlunk út fyrir almennilegt G-Shock úr frá Casio sem er enn stillt upp í sölugluggum úrsmiða því þau einfaldlega neita að detta úr tísku rétt eins og Nokia 5110.

Einsleitnin er svo leiðinleg!

Á tímabili reyndi ég að vera virkur í athugasemdum og að mestu án öfga, haturs og reiði. Gerði mitt besta til að vera málefnalegur.  Allt kom fyrir ekki.  Ég var hæddur, mér hótað og óskað sviplegs dauða.

Gjörsamlega tilgangslaust að tjá sig á athugasemdakerfum netsins.  Þú verður alltaf sigldur í kaf og kallaður ljótum nöfnum.  Þeir sem þarna tjá sig setja enga síu á sjálfa sig.  Leyfa bara öllu gallinu að flæða upp úr iðrum sér án ritskoðunar.

Manni kann að þykja ýmislegt um annað fólk en það er algjör óþarfi að gaspra því yfir óravíddir internetsins.  Allt í lagi að halda því bara fyrir sjálfan sig.  Inn í litla kálhausnum sínum.

Fólk á rétt á að vera það sjálft án þess að ég fari að benda fingri að því og hrópa:  Þú ert svona og mér líkar það ekki!  Við erum bara eins og við erum og eigum fullan rétt á því án athugasemda frá öðrum.  Fögnum fjölbreytileikanum. Einsleitnin er svo leiðinleg!