Skítmennskan

Ævintýralegt að fylgjast með stjórnendum Álversins í Straumsvík ganga í störf undirmanna í kjarabaráttu við uppskipun á áli.  Hvað gengur þessu fólki til með því að drulla svona yfir starfsfólk sitt?  Er lokatakmarkið í þessu leikriti að leggja niður álverið til að spara kostnað móðurfyrirtækisins?

Forsætisráðherrabarnið lætur öllum illum látum yfir viðbrögðum ASÍ við nýjum búvörusamningi.  Þykist ekki skilja að andúð þjóðarinnar beinist að græðgi milliliðanna en ekki sjálfum bændunum sem lítið sem ekkert græða frekar en fyrri daginn.  Fólk þolir ekki þetta afætukerfi og vill meiri innflutning án ofurtolla til mótvægis.

Byggja á ljótustu viðbyggingu landsins á bílastæðinu við Landsímahúsið í Kirkjustræti. Breyta skal hjallinum í enn eitt hótelið.  Jafnvel rifin upp peningabúnt fyrir fornleifarannsókn á aldagömlum gröfum.  Parlament Hotel skal komast í gagnið.  Og borgarstjóri heldur því fram að miðbærinn eigi ekki að breytast í Benidorm.  Einmitt!

Takk fyrir ekkert!

Enginn ætlar að gera neitt.  Bara láta reika á reiðanum.  Halda áfram sama aðgerðarleysinu og þjónkuninni við valdið.  Ætlast svo til að við kjósum þau, þessa fulltrúa fimmflokksins áfram eftir rúmt ár.

Helgi Hjörvar mun ekki bjarga Samfylkingunni frá frjálsu falli með framboði sínu til formanns.  Hann er hluti þeirrar fortíðar sem við höfum nú þegar hafnað. Flokka sem höfðu af okkur nýju stjórnarskránna sem við kusum um eftir hrun.

Í flestum öðrum löndum hefði einhver verið skotinn í hausinn fyrir slíka frekju og valdníðslu, en ekki hérna á Klakanum.  Hér tökum við slíku gerræði með jafnaðargeði. Beygjum okkur bara aðeins betur, tökum það lengra upp í ósmurt rassgatið og þökkum pent fyrir.

En við megum víst þakka fyrir stjórnarskrártillögurnar fjórar sem eru væntanlegar út úr nefndinni.  Eitthvert miðjumoð sem engu máli skiptir.  Takk fyrir ekkert.

Vote stupid!

Sem stendur virðast Bandaríkin ætla að kjósa yfir sig enn meiri fávita en George W. Bush og verða aðhlátursefni um heim allan.  Vafasaman viðskiptamann með ofuregó, strigakjaft og skoðanir furðu líkar þeim sem Adolf Hitler hafði.

Hér bíðum við eftir „alvöru“ frambjóðanda sem mun líklega aldrei láta sjá sig.  Því mun sitjandi forseti sjá sig til tilneyddan til að hætta við að hætta og sitja lengur því engar „puntudúkkur“ geti sinnt embættinu.  Eða þá að svo margir bjóða sig fram að við fáum einhvern af mörgum slæmum kostum á Bessastaði.  Þorgerði Katrínu, Davíð Oddsson eða Vigdísi Hauksdóttur.

Skelfilegt hve margt líkt er með kosningarhegðun okkar og vina okkar handan hafsins í Ameríku.  Við kusum Sigmund og hans bjánastóð yfir okkur út á loftbóluloforð. Og sennilega gerum við það aftur að ári liðnu út á nýtt loforð úr ermi Framsóknarflokksins. Því við erum orðin svo gegnumsýrð af aumingjaskap og heimsku.

Kjósum heimsku í næstu kosningum!