En hvað með börnin?

Þegar allt annað þrýtur bendir rökþrota fólk á börnin.  Ekki megi þau nú sjá bjór og vín í matvörubúðum.  Gætu orðið alkahólistar.  Meira aðgengi auki drykkju og andskotinn og amma hans muni ríkja á jörðu ef sala verði leyfð fyrir utan Vínbúðir ríkisins.

Hræðsluáróður uppþurrkaðra alka og afturhaldssinna tröllríður öllum fjölmiðlum og netmiðlum þessa dagana.  Veikt fólk sem þolir ekki að sjá áfengi í búðum á vitaskuld að skutla sér aftur í meðferð hið snarasta.  Er greinilega ekki enn búið að ná fótfestu í bindindi sínu.

Óttar Guðmundsson geðlæknir var í viðtali í vikunni og hitti naglann á höfuðið. Við erum allt of upptekin við að forða börnum okkar frá áföllum í lífinu. Komum þeim fyrir í baðmull.  Keyrum þau í skóla og á æfingar.  Bönnum auglýsingar á áfengi yfir 2,25% þó svo afkvæmin sjái áfengisauglýsingar upp um alla veggi netsins, ásamt grófu klámi og ofbeldi.

Án nokkurra rannsókna eða gagna, þá fullyrði ég að aukið aðgengi að áfengi breyti litlu um drykkjuómenningu landans, nema kannski helst til batnaðar. Vil ég jafnvel ganga enn lengra og afnema öll gjöld af áfengi nema virðisaukann. Sannið þið til, umgengni okkar við þessa bannvöru sem hefur verið sett á stall að óþörfu, mun batna til muna.

Löngu tímabært að þröngsýnt fólk með samanbitnar varir og handleggi um mitti sín láti af kúgun sinni á okkur hinum sem erum ekki með áfengi á heilanum og treystum okkur alveg til að umgangast það af virðingu.

Málið snýst ekki um stjórnmálaflokka, frelsi eða græðgi kaupahéðna.  Það snýst um almenna skynsemi.  Látum af þessum heimóttarskap og sveitamennsku.  Hingað heimsækja okkur yfir milljón ferðamenn á ári sem stöðva okkur út á götu og spyrja okkur forviða hvar þau geta útvegað sér eina rauðvínsflösku með sér upp á hótelherbergi.

Þvermóðska

Þessi fræði um að skert aðgengi og hátt verð minnki drykkju fólks er tóm vitleysa.  Búin til af fólki sem elskar að hirða ofurskatta af samborgurum sínum og elskar enn meira að hafa stjórn á þeim.   Fólk sem vill drekka mun drekka óháð verði og aðgengi.

Að banna sölu á bjór og léttvíni í öðrum verslunum en ríkissins er þvermóðska af verstu gerð.

Rörsýn

Mig rekur ekki í minni að hafa nokkurn tíma hætt að vera vinur nokkurs á facebook þegar skoðanir viðkomandi hafa farið í taugarnar á mér.  Hef þó gælt við það einstaka sinnum þegar einhver hefur gengið svo algjörlega fram af mér með trúarofstæki, vitleysu eða blindri trú á stjórnmálaflokk.

En svo hugsað að það sé engum hollt vera aðeins umkringdur skoðanasystkinum sínum með rörsýn á samfélagið.