Sveitt samfélag

Ég ber ugg í brjósti. Samfélagið virðist vera komast á heljarþröm. Verkföll komin í gang og fleiri í farvatninu. Enginn samningsvilji og fundarhöld árangurslaus. Á meðan hækkar stjórn Granda launin sín um tífalda prósentu þess sem þau bjóða fiskverkafólki sínu á gólfinu og greiða út arð til hluthafa nálægt þremur milljörðum eins og ekkert sé. Og þessi hvalmyrðandi tímaskekkja stjórnarformaður Jón Loftsson hellir svo bara olíu á eldinn með hroka sínum og skilningsleysi.

Mig langar ekkert í verkfall. Bara gamaldags baráttuaðferð sem litlu skilar þegar upp er staðið og bitnar helst á þeim sem berjast fyrir bættum kjörum sínum meðan ríka pakkið lifir í vellystingum. Væri nær að hóta að skjóta einhverja silkihúfuna í hausinn. Án efa mun skilvirkari og fljótlegri aðferð.

Berlín

Á milli stríða og bjóra í Berlín láðist mér að renna smá tónlist í gegnum farsímann minn með nettengingu hótelsins. Eina sem mér datt í hug á hlaupum voru Elvis Presley og Johnny Cash sem báðir sinntu herþjónustu í Þýskalandi á sínum tíma.

Elvis milli 1958 og 1960 í Friedberg í þriðju skriðdrekasveitinni.  Cash þjónaði sem „radio operator“ við hlerun í Landsberg í Bæjaralandi í fjögur ár (1950 – 1954) og sagan segir að hann hafi verið sá fyrsti vestan meginn til að heyra af dauða Stalíns þegar hann var að hlera samskipti frá Sovétríkjunum eina vaktina.

Mér finnst merkilegt að tveir svona stórir bandarískir listamenn þjónuðu báðir í Þýskalandi og urðu án efa fyrir ýmsum áhrifum frá veru sinni þar. Báðir fátækir Suðurríkjamenn að sinna sinni herskyldu. Elvis þó kominn í góða stöðu en taldi sig ekki eiga afturkvæmt á tónlistarsviðið og taldi ferli sínum lokið. Johnny blautur á bak við eyrum.

Báðir sneru þeir aftur þroskaðri menn með konu upp á arminn. Elvis með Priscillu og Johnny með Vivian sem hann hafði kynnst í grunnþjálfum fjórum árum fyrr í Texas. Og héldu svo grimmt framhjá þeim næstu árin eins og sönnum stjörnum sæmir. Freistingar við hvert fótmál.

Bítlarnir voru í Hamborg áður en þeir urðu heimsfrægir og þróuðu sinn stíl í sveittum klúbbum hafnarborgarinnar.  Þýskaland virðist bæta flesta enskumælandi tónlistarmenn.

En hvað um það. Varð hugsað til Cash og Presley eftir túrinn um Þjóðskjalasafn Þýskalands á föstudeginum sem hafði áður þjónað ýmsum hlutverkum; þ.á.m. sem herstöð fyrir bandaríska hermenn eftir seinna stríð. Og urðu þar til kynni og jafnvel hjónabönd milli bandarískra hermanna og þýskra kvenna. Rétt eins og á Íslandi.

Berlín er borg mér að skapi. Afslöppuð, flöt og ekki með neitt vesen. Allt upp á tíu og stundvísi dyggð. Falleg og hrein borg með mikla sögu. Þangað mun ég koma aftur. Þjóðverjar eru gott fólk sem gott er heim að sækja. Einstaklega kurteist. Tala nú ekki um ef maður reynir að tala við þau á sinni menntaskólaþýsku.

Leiðtogi vor fertugur

Þvílíkar samkomur! Landsfundur og fertugsafmæli „leiðtogans“ þar sem hver silkihúfan af fætur annarri mætti með gjafir og heillaóskir. Jafnvel stjórnarandstæðingar með bros á vör og brúnar tungur. Sem sannar kenningu mína og fjölda annarra um að fimmflokkurinn er fyrirfram skrifað leikrit gert til að blása ryki í augu kjósenda. Þarna eru allir bestu vinir að tryggja völd sín gegn vilja almennings.

Mikið rosalega ætla ég ekki að kjósa fimmflokkinn næst! það verður eina forsenda mín. Svona fólk á ekki skilið atkvæði mitt til þess eins að geta lyft glösum með mesta fábjána sem nokkurn tíma hefur vermt sæti forsætisráðherra Íslands. Skammist ykkar!

Við eigum svo miklu betra skilið!