Við eigum svo miklu betra skilið!

Ekki man ég til þess að hafa nokkurn tíma komið til Skagafjarðar, en hef þó sennilega gert það óafvitandi með ömmu og afa í æsku og fundist lítið til koma fyrst ég man ekki eftir því. Í ljósi frekju og yfirgangs þessa sveitarfélags veit ég þó að þar mun ég aldrei viljandi stíga fæti. Jafnvel þótt líf mitt liggi við. Fari Skagafjörður og veri fyrir mér!

Þarna liggur eitt helsta bæli Framsóknar í landinu. Flokks sem hefur ætíð verið til óþurftar og klofið íslenska þjóð í gegnum tíðina. Staðið gegn nauðsynlegum framförum og eitrað samskipti við aðrar þjóðir. Verið á móti eðlilegum innflutningi og haldið verði á matvöru í hæstu hæðum. Allt fyrir sína flokkshesta sem þora ekki í eðlilega samkeppni við heiminn.

Framsóknarflokkurinn og hans fylgisfólk eru krabbamein á þjóðinni sem þarf að kjósa burt ef við ætlum einhvern tímann að eiga einhverja framtíð í þessu landi. Svo einfalt er það.  Það er komið nóg af framsóknarmennsku!

Þegar Framsókn hefur verið kosin í kútinn, munum við losa okkur við Sjálfgræðgisflokkinn. Hitt meinið á þjóðarsálinni. Jakkafataklædda pabbadrengi sem telja sig eiga eitthvert tilkall til auðs og valda í íslensku samfélagi. Litlir kallar sem hrópa úr ræðustól Alþingis að eigi að skila þeim lyklunum að Stjórnarráðinu. Eins og þeir eigi það skuldlaust. Kommúnistaflokkur Íslands sem þykist vera frjálslyndur á tyllidögum.

Við eigum svo miklu betra skilið!

Norður – Ísland

Stundum fær maður það á tilfinninguna að maður búi við einræði í stað lýðræði. Að við séum útibú Norður-Kóreu og okkar guðlegi leiðtogi Sim-Da-Guð leggi okkur lífsreglurnar með reglulegu millibili.

Nýjasta nýtt er að flytja Landspítalann á pínulitla lóð RÚV og byggja stúdentagarða við Alþingi eftir eldgamalli teikningu drykkfellds og löngu látins arkitekts. Gott ef á ekki að flytja svona hundrað opinber störf í Skagafjörðinn svo kóngurinn þar og aðal styrktaraðili Framsóknar fái eitthvað fyrir sinn snúð. Ekki nóg að gera skósvein kaupfélagsstjórans að utanríkisráðherra.

Yfirgengileg frekjan í þessum flokki aftur úr forneskju er orðin svo mikil að hún kallar á kosningar ekki seinna en í gær. Samstarfsflokkurinn er nú lítið skárri með allt sitt dekur við ættarlauka Engeyinga í formi ríkisaðstoðar fyrir óarðbært fiskeldi, ferðamannapassa og að leggja niður Bankasýsluna svo hægt sé að einkavinavæða Landsbankann milliliðalaust beint úr Fjármálaráðuneytinu.

Hin svokallaða skuldaleiðrétting verður látin duga sem uppfylling kosningarloforða og réttlæting fyrir því að stjórnarflokkarnir megi hlaða undir sig og sína það sem eftir lifir af kjörtímabilinu. Svo kortéri fyrir næstu kosningar koma fjósafasistarnir fram með nýtt loforð til að tryggja sig sem stjórntækan flokk með hundhlýðnu fylgi íhaldsins sem fer aldrei niður fyrir 25% því kjósendur þess trúa því virkilega að þau séu að veita frjálslyndum flokki atkvæði sitt. Einmitt!

Þetta er sovéskur flokkur upp á gamla mátann með fulltrúa í öllum stofnunum og stærri fyrirtækjum til þess að framfylgja vilja flokksins. Veit samt ekki hvort þeir sendi enn tvo fulltrúa í öll fyrirtæki landsins og heimti framlag svo fyrirtækið fái að starfa í friði og verði ekki sett á hausinn af stjórnsýslunni.

Þetta er viðbjóðslegt samfélag sem þarf svo illilega á góðri hreinsun að halda með klóri og sýru.

Geirvörtur

Auðvitað á ekki að breyta neinu hvort að stelpa eða strákur rífi sig úr að ofan og viðri á sér geirvörturnar. Brjóst eru ekki kynfæri. Hefndarklám er fáranlegt! Skilum skömminni þangað sem hún á heima. Ekkert flókið við þennan boðskap.

Samt fara alltaf einhverjar risaeðlur af stað á netinu. Aðallega massaðir menn og yngri en ég með mynd af sjálfum sér berum að ofan á facebook að rífa í lóðin. Finnst fáranlegt að stelpur séu að ganga um berar að ofan. Sennilega sömu gaurarnir og birta nektarmyndir af sínum fyrrverandi á netinu eftir að þær hafa fattað að þær voru að deita slefandi fávita.

Hin herdeildin vill hafa vit fyrir öllum og koma í veg fyrir að nokkuð gerist. Guð forði okkur frá því að menntaskólastúlkur fái frumlega hugmynd við að koma boðskap sínum á framfæri. Það má ekki. Gæti ruggað bátnum og skákað sjálfu feðraveldinu.