Píratar eru dæmið!

Það virðist nær tilgangslaust að mæta á kjörstað og kjósa til Alþingis. Dæmið virðist allt fyrir fram teiknað upp af gömlum valdastéttum sem settu sig í stellingar um leið og að almennum kosningum var komið á fót á sínum tíma. Fjórflokkurinn er bara eitt og sama dæmið með fjórum mismunandi deildum til að gabba kjósendur.

Píratar eru dæmið! Klippt og skorið. Einfaldur kostur í stað þess að skila auðu. Hér er fyrir löngu orðin þörf á róttækri breytingu. Burt með þetta pakk sem platar þjóðina til að kjósa sig aftur og aftur inn á þing til þess eins að viðhalda óbreyttu spillingarástandi.

Persónulega finnst mér að Gunnar Bragi utanríkisráðherra og Bjarni Ben. séu búnir að vinna sér inn nokkur kjaftshögg fyrir að gefa þingræðinu fokkputtann. Þessir menn skilja ekki ferli mála. Halda að þeim leyfist að taka einhliða ákvörðun um mál án aðkomu þingsins. Þar skjátlast þeim illilega.

Félagsfælnin

Þrátt fyrir að ganga bara bærilega í flestu sem ég tek mér fyrir hendur þessa dagana, þá ræð ég ekki alveg við blessaða félagsfælnina. Eftir að hafa legið í dvala lengi vel þá lætur hún aftur á sér kræla upp á síðkastið.

Stökk út úr strætó um daginn því ég þurfti að standa og hlusta á danskt fuglabjarg einhverra stelpna þaðan. Meikaði það ekki. Tók næsta í staðinn. Bekkjarsystir úr grunnskóla heilsaði upp á mig þegar við vorum í sitthvorri röðinni í Krónunni. Ég fór í kerfi. Vissi ekki hvernig ég átti að bregðast við þessum aðstæðum sem ég réð ekki við. Hraðaði mér út á undan henni til að lenda ekki í spjalli um allt og ekkert.

Sat næst aftast í strætó og hópur af Verzlingum umkringdu mig. Sá fyrir framan mig horfði í sífellu yfir mig á félaga sína á aftasta bekknum. Eitthvað sem ég gjörsamlega þoli ekki. Fólk á að sitja beint og horfa fram í strætó. Var við það að fara fremja morð þegar helvítis, vel greiddi Verzlingurinn hætti þessu þegar hluti vina hans fóru úr vagninum.

Og ég þarf að mæta í fermingarveislu á morgun. Jesús eini! Það sem er lagt á einn mann!

Hvernig dirfast þau!

Ríkisstjórnarfundur þriðjudaginn 10. mars: Hættum þessu kjaftæði og sendum utanríkisráðherra með bréf til að ljúka aðildarviðræðum okkar að ESB fyrir fullt og allt. Þingið þarf ekkert að koma að þessari ákvörðun. Við ráðum. Við eigum þetta, megum þetta. Fengum blússandi kosningu fyrir tæpum tveimur árum sem veitir okkur rétt til að taka þjóðina ítrekað í afturendann.

Einhvern veginn svona sé ég fyrir mér þennan ríkisstjórnarfund síðastliðinn þriðjudag. Engum viðstöddum virðist hafa dottið í hug að stjórnarandstaðan og meirihluti þjóðarinnar myndi rísa upp á afturlappirnar og mótmæla. Finnast á sér brotið. Talandi um taktlausa ríkisstjórn.

Ríkisstjórn sem virðir ekki þingræðið er dauðadæmd! Svo einfalt er það. Mætum sem flest niður á Austurvöll á morgunn kl. 14:00 og sýnum þessari spillingarstjórn í tvo heimana. Hvernig dirfast þau!