Til hamingju með bjórinn!

Fyrir tuttugu og sex árum fengum við loksins að versla okkur bjór í Ríkinu. Ótrúlegt en satt! Löwenbrau var mest keyptur þann daginn. Hrakspár þingmanna sem voru á móti eru kostulegar. Bæði þá og núna. Jafn fáranlegar og þær raddir nú sem vilja standa í vegi fyrir að áfengi megi selja víðar en bara í ríkisreknum verslunum.

Málið snýst einfaldlega um verslunarfrelsi. Rétt eins og að einokun danskra kaupmanna á utanríkisverslun var afnumin hérlendis 1787 verður að fella hinsta vígi ríkisverslunar í landinu 2015. Tóbak er selt í flestum matvöruverslunum með ofursköttum ríkisins. Því skyldi vera eitthvað flóknara að selja þar áfengi…með sömu ofursköttum?

http://www.dv.is/lifsstill/2015/2/28/bjorbanni-aflett-1-mars-1989/

Fararskjótinn minn

Ég nota almenningssamgöngur. Á ekki bíl. Lengst af hefur þetta verið ágætt. Eða þar til að einhverjum snillingnum datt í hug að leyfa reiðhjól í vögnunum. Sem betur fer sjást þau sjaldan nú orðið þar sem að fólk hjólar alla leið án þess að sníkja sér far hluta leiðarinnar. Annað væri svindl hjá ofurfólkinu.

Svo fylltust vagnarnir af erlendum byggingarverkamönnum sem drukku bjór á leiðinni heim síðdegis á föstudögum og ulluðu framan í bílstjórann. Þetta ástand er byrjað aftur. Einn sveittur hékk fyrir aftan mig áðan og ropaði bjór yfir mig alla leið inn í Kópavog. Skil ekki í mér að hafa ekki handrotað hann með olnboganum.

Nú á að fylla vagnana af gæludýrum farþega. Hvað er eiginlega að! Er ekki tilgangurinn með því að eiga hund að fara út með hann að ganga? Til hvers að troða honum inn í strætisvagn ásamt fullt af öðrum þarmasleikjum og fólki sem er hrætt við dýr? Sé husky fyrir mér að klippa smáhund í tvennt. Farþega sparka eitthvert kvikindið til dauða í hræðslu sinni. Gaman!

Látið strætisvagnana í friði! Þeir eru fyrir fólk sem á ekki bíl og hjólar ekki á milli staða. Punktur!

Hvert lítið skref

http://www.mbl.is/frettir/innlent/2015/02/27/afengisfrumvarp_afgreitt_3/

Loksins mjakast þetta mál eitthvað áfram þrátt fyrir heimsendaspár og væl í fólki sem elskar að hafa vit fyrir öðru fólki og segja okkur hvað má og ekki má. Góða fólkið óttast að unglingadrykkjan fari aftur í gang. Það heldur að ungmennin séu hætt að drekka því þau sjást ekki lengur veltandi um hvert annað niður í miðbæ. Djúsa bara í heimahúsum í staðinn.

Mikið hlakka ég til að þurfa ekki lengur að kaupa ölið hjá ríkinu eins og glæpamaður. Algjör risaeðla aftur úr grárri forneskju mun hverfa inn í myrkur tímans og allar leiðindaskjóðurnar með. Hver man ekki eftir vælinu þegar lögleiða átti bjórinn. Spárnar gengu út á það að ofurölvað fólk myndi ráfa um göturnar í miðri viku og sleppa því að mæta til vinnu.

Hingað slæðist milljón erlendra ferðamanna á ári og Costco fer að opna í Kauptúni. Hættum þessum búrahætti og feimni gagnvart áfengi. Þetta er bara venjuleg söluvara sem á heima hvar sem er.