Við erum saklausir!

Stækur hrokinn drýpur af sakborningum sem hlutu dóm Hæstaréttar í Al-Thani málinu. Dirfast að röfla fullir í fréttatímum og óska aðstoðar Mannréttindadómstóls Evrópu eins og einhver fórnarlömb í stað þess að falla á sverð sín og dauðskammast sín.

Alveg á ég eftir að sjá að þessir stórlaxar mæti til afplánunar.  Forða sér sennilega til einhvers ríkis sem er ekki með framsalssamning við Ísland og hlæja að okkur alla leið í bankann þegar þeir vitja þýfisins sem þeir höfðu af okkur.

Munu eflaust finnast fyrir neðan virðingu sína að hlýða kalli æðsta dómstóls landsins.  Og ef/þegar það gerist þá á að svipta þessa dóna ríkisborgarrétti. Hafa ekkert með hann að gera ef þeir virða ekki lög landsins.

Sælla er að gefa en að þiggja!

Í gær var góður dagur og ég fór að hugsa um þakklæti og karma þegar ég slæddist inn í Vínbúðina við Dalveg þar sem strákur stóð og seldi happdrættismiða fyrir Samhjálp.  Á leið minni inn hunsaði ég hann rétt eins og allt hitt fólkið gerði.

Eftir kaup á syndasafanum gekk ég til hans og renndi kortinu í gegnum posann hans. Ekki eins og maður þurfi að ganga með seðla á sér til að styrkja þennan góða málstað. Að rétta tvo þúsundkalla til Samhjálpar þarfnast engrar íhugunar eða yfirlegu.  Mér leið svo miklu betur á eftir.  Sælla er að gefa en að þiggja!

Margt getur breyst á stuttum tíma

Eftir fjögurra ára langtímaatvinnuleysi kann ég ekki að eyða peningum. Jafnvel þó ég hafi veskið fullt af seðlum.  Þrátt fyrir bráðum tveggja ára starf hjá Þjóðskjalasafni Íslands þá finn ég ekki enn fyrir svo mikilli öryggistilfinningu að ég galopni veskið og fari að dreifa seðlum í allar áttir.

Atvinnuleysið skemmdi mig að vissu leyti.  En bætti að öðru leyti.  Ég fæ ekki greiðslukortið aftur sem bankinn hrifsaði af mér í kjölfar hrunsins. Og þurfti nýlega að gráta út fyrirfram greitt greiðslukort í þremur tilraunum frá bankanum mínum.

Sem er gott því að ég kunni ekkert með peninga að fara fyrir hrun.  Og kann enn síður að fara með þá núna að því leyti að ég þori ekki að eyða neinu. Atvinnuleysið bíður sífellt við næsta horn.  Ég velti hverri krónu fyrir mér.

Sem er ágætt því ég mun aldrei aftur líta á ráðningu sem æviráðningu. Munurinn á milli reynslutíma og fastráðningar eru tveir mánuðir í uppsagnarfresti. Það er allt og sumt.  Enginn er öruggur með neitt.  Hollt að læra það sem fyrst.  Margt getur breyst á stuttum tíma.