Þráhyggju- og áráttuhegðun

Á bls. 88 í Fréttatíma helgarinnar er umfjöllun um nýútkomna sjálfshjálparbók: „Náðu tökum á kvíða, fælni og áhyggjum“ eftir Sóley Dröfn Davíðsdóttur forstjóra Kvíðameðferðarstöðvarinnar.  Í útdætti er fjallað um undirflokk þráhyggna og áráttu; efasemdir.

Ég er víst einn af þessum 2 -3% landsmanna sem þjást eða hafa þjáðst af þessum sjúkdómi einhvern tímann á lífsleiðinni.  Ég tékka ótal sinnum hvort slökkt sé á eldavélinni áður en ég fer út.  Og athuga jafn oft hvort útidyrahurðin sé ekki alveg örugglega læst.

Og eins og þetta sé ekki nóg þá kaupi ég mjög oft tvennt af einhverri vöru út í búð.  Er með tvær vatnsflöskur á borðinu í vinnunni.  Tvo penna og tvo blýanta. Tvö strokleður.  Tvær skrifblokkir.  Ætla ekki að fara út í fyrirkomulagið heima. Það er síst skárra.

Kosturinn er að ég geri mér grein fyrir þessum annmörkum mínum og er að reyna að laga þá. Það gerist bara ekki einn, tveir og þrír.

Ég mun verða grennri!

Hef haft insúlínpenna hangandi yfir mér síðustu tvo mánuði frá síðasta tékki. Var búinn að sætta mig við að þurfa nota hann þegar ég mætti aftur á deild G3 fyrir sykursjúka á Borgarspítalanum síðastliðinn föstudag.

En þegar vigtin sagði að ég hefði misst heil sjö kíló og langtímasykurinn hafði lækkað umtalsvert, þá var útséð með að ég fengi nokkurn insúlínpenna í jólagjöf. Og ég sem hafði bara hætt að stelast til að borða súkkulaðistykki með hádegismatnum og á kvöldin yfir kassanum.

Aldrei hef ég komist nær því að þurfa að sprauta mig vegna þessa lífsstílssjúkdóms.  Og ég ætla mér að komast eins fjarri því í framtíðinni. Eins og læknirinn sagði, þá get ég alveg haft stjórn á sykrinum ef ég vill það.  Er ekkert fast í hendi að ég eigi að vera feitur til æviloka.

Ég var einu sinni grannur.  Ég mun verða grennri!

Gegn gagnrýni

Ríkisstjórnin fer ekki í neinar grafgötur með hernað sinn gegn fjölmiðlum sem þeim fellur ekki í geð. Ríkisútvarpið skal hnébeygt til hlýðni eða lagt niður. Framsókn í gegnum Björn Inga Hrafnsson hefur keypt DV. Útgerðin á Morgunblaðið með húð og hári. Þar ritstýrir Davíð Oddsson og reynir af veikum mætti að endurrita söguna. Svona vill framsóknaríhaldið hafa það. Stjórna opinberri umræðu sér í hag.